Fótbolti

Ramos spilar í Mexíkó en af hverju í treyju númer 93?

Sindri Sverrisson skrifar
Sergio Ramos lék síðast með uppeldisfélagi sínu Sevilla en er nú mættur til Mexíkó.
Sergio Ramos lék síðast með uppeldisfélagi sínu Sevilla en er nú mættur til Mexíkó. Getty/Joaquin Corchero

Spænska fótboltagoðsögnin Sergio Ramos hefur tekið fram takkaskóna að nýju og mun spila í efstu deildinni í Mexíkó.

Ramos, sem verður 39 ára í næsta mánuði, lék síðast fótbolta með Sevilla á Spáni en hætti þar síðasta sumar.

Í gær var hann hins vegar kynntur sem nýr leikmaður Monterrey í Mexíkó.

„Sögufrægur varnarmaður í heimsfótboltanum, margfaldur meistari með Real Madrid og PSG og heimsmeistari með Spáni. Velkominn til Club de Futbol Monterrey. Leiðtogahæfni þín, hæfileikar og sigurhugarfar mun koma „Bláum og hvítum“ í hæstu hæðir,“ segir í tilkynningu Monterrey.

Athygli vekur að Ramos verður í treyju númer 93 hjá Monterrey en það er til að minnast marksins sem hann skoraði á þriðju mínútu uppbótartíma fyrir Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu árið 2014. Markið tryggði Real framlengingu og liðið varð svo Evrópumeistari.

Ramos, sem vann mikinn fjölda titla á sextán árum með Real Madrid og varð heimsmeistari með Spáni 2010 og Evrópumeistari 2008 og 2012, er uppalinn hjá Sevilla. Hann lék í eitt ár fyrir félagið áður en að samningur hans rann út síðasta sumar.

„Við höfum reynt að semja við hann síðan síðasta sumar. Það gekk ekki upp þá en við reyndum aftur núna í félagaskiptaglugganum,“ sagði Jose Antonio Noriega, forseti Monterrey.

„Liðið þarf á honum að halda. Hann hefur gæðin, gríðarlega reynslu, rosalegan persónuleika og er óumdeildur leiðtogi,“ sagði Noriega.

Ramos kemur því til með að spila á HM félagsliða í sumar en Monterrey er eitt af þremur mexíkóskum liðum sem taka þátt í mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×