Sports Interactive hefur framleitt Football Manager leikina frá árinu 2004 en fyrirtækið sleit sig þá frá Eidos sem hafði framleitt Championship Manager frá því á tíunda áratugnum. Football Manager 2005 var fyrsti leikurinn í röðinni og hefur komið út árlega síðan, allt þar til í ár.
Í leiknum getur spilari sett sig í spor fótboltaþjálfara. Hann setur upp taktík fyrir lið sitt, æfingar, sinnir leikmannakaupum og haft áhrif á stefnu síns félags. Hægt er að stýra liðum á öllum stigum fótboltans, allt frá Bestu deildinni til ensku úrvalsdeildarinnar.
Fjölmargar nýjungar áttu að vera í Football Manager 2025, þar á meðal kvennafótbolti og ný leikjavél þegar kemur að fótboltaleikjum innan leiksins. Útgáfu leiksins var frestað í haust en leikurinn kemur iðulega út í nóvember.
Hann átti að koma út í byrjun mars, sem var frestað þar til í lok mars en í morgun tilkynnt að leikurinn komi alfarið ekki út.
„Með útgáfu FM25 stefndum við á að skapa stærstu tæknilegu og sjónrænu framþróun fyrir leikjaröðina um árabil, og leggja grunninn að nýjum tímum,“ segir í yfirlýsingu frá framleiðendum leiksins.
„Vegna fjölda áskorana sem við höfum rætt opinberlega og annarra sem var erfitt að sjá fyrir, höfum við ekki náð markmiðum okkar á nægilega mörgum sviðum leiksins, þrátt fyrir mikla vinnu teymis okkar,“
„Við biðjumst innilega afsökunar á að hafa brugðist ykkur,“ segir einnig í tilkynningunni. Hana má sjá í heild að neðan.
Allt púður verður nú sett í að framleiða Football Manager 2026 sem kemur þá að líkindum út á vetrarmánuðum í lok þessa árs.