Þetta er í fyrsta sinn sem þessi tækni verður notuð formlega í enska boltanum og markmiðið með henni er að auka hraða og nákvæmni við mat á rangstöðu leikmanna í leikjum.
Ef tilraunin heppnast vel þá verður hún einnig tekin í notkun í ensku úrvalsdeildinni í framhaldinu. Sky Sports segir frá.
Það eru átta leikir í þessari umferð bikarsins en það verða þó bara sjö þeirra sem hafa þessa tækni.
Stefán Teitur Þórðarson og félagar í Preston North End fá Burnley í heimsókn en verða að sætta sig við rangstöðudóma upp á gamla mátann.
Áhorfendur heima í stofu fá líka grafískar teikningar af rangstöðudómum og þar kemur í ljós hvaða líkamshlutar sóknarmannsins voru fyrir innan. Fótboltaáhugafólk kannast við þessa tækni frá leikjum í Meistaradeildinni og á síðasta Evrópumóti.
Það átti að taka þetta upp eftir landsleikjahléið í október að nóvember en því seinkaði. Nú á að prófa þetta í bikarnum og sjá hvernig gengur.
Myndbandsdómgæsla verður í öllum leikjunum átta þar á meðal hjá Stefáni Teiti og félögum.