Þrjú skip hafa verið við loðnuleit þessa vikuna. Árni Friðriksson hélt út síðastliðinn laugardag og síðan bættust við fiskiskipin Heimaey og Polar Ammassak. Auk þeirra er rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson í árlegum vetrarleiðangri umhverfis landið til að kanna ástand sjávar.

„Árni Friðriksson hefur verið í loðnu en ekki komin nein mynd á magnið þar ennþá. Árni er að sjá loðnu með landgrunnskantinum á sömu slóðum og í janúar,“ segir Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar.
„Ennþá hefur ekki verið neitt að sjá hjá Heimaey og Polar Ammassak,“ segir hann.
Spurður hvort þær lykkjur sem sjást á siglingaferli Polar Ammassak norður af Skaga í dag tákni að þar hafi orðið vart loðnu svarar Guðmundur:
„Þetta var ekkert hjá Polar, bara smá loðna.“

Skipin klára yfirferðina þarna á morgun og í framhaldinu munu þau leita á grunnunum fyrir norðan land, að sögn Guðmundar.
„Það verður ekki komið mat á magnið hjá Árna fyrr en í fyrsta lagi á mánudaginn, og þá hvort þetta sé einhver viðbót við það sem áður hafði verið mælt á þessum slóðum,“ segir fiskifræðingurinn.