Lorenzo var með ólæknandi heilaæxli. Hann hafði fengið að kynnast Mbappé og nokkrum vikum áður en Lorenzo lést bauð Mbappé honum í heimsókn, í gegnum áhrifavaldinn Julian Gerondi sem L‘Equipe segir að noti TikTok-frægð sína til að hjálpa langveikum börnum að fá drauma uppfyllta.
Lorenzo flaug til Madridar í boði Mbappé og sá hann skora í 4-1 sigri Real Madrid gegn Las Palmas þann 19. janúar. Fagnaðarfundir urðu þegar þeir hittust eins og sjá má á myndskeiðinu hér að neðan sem Real Madrid birti.
🤍 ¡El sueño cumplido de Lorenzo al conocer a @KMbappe! 🤍 pic.twitter.com/evIco5SrOe
— Real Madrid C.F. (@realmadrid) January 21, 2025
Lorenzo lést á miðvikudagskvöld á sjúkrahúsi í Rouen í Frakklandi. Mbappé birti þá færslu á Instagram þar sem hann skrifaði:
„Eftir langa baráttu, sem þú tókst á við af hugrekki, þá kvaddir þú í nótt. Ég sendi foreldrum þínum, sem studdu þig svo vel á þessum erfiðu tímum, allar mínar hlýjustu hugsanir. Ég fékk þann heiður að verja smátíma með þér og kynnast því hvað þú varst mikill snillingur og hvatning fyrir aðra. Þinn vinur, Kylian.“
Á heimasíðu Real Madrid er sömuleiðis greint frá andláti Lorenzo. „Við munum alltaf minnast „Lorenzo litla“ með mikilli væntumþykju og hann verður áfram í hjörtum okkar,“ segir í tilkynningu Spánarmeistaranna.