Í færslu á samfélagsmiðlum segist hann hafa reynt að tileinka sér snyrtimennsku í klæðaburði síðan hann sór drengskaparheitin en að honum leiðist afskaplega snobb og tilgerð og því hafi það reynst hægar sagt en gert.
Í þingmannshlutverki og einnig í framboði hans til forseta hefur því meira borið á fínum tvídjakkafötum úr smiðju Kormáks og Skjaldar sem eru frekar í jarðlitum. Þó fylgir hann ekki alltaf hinum óskrifuðu reglum jakkafatanna. Hann er oft með skrautleg bindi eða bara ekki með bindi og þá með skyrtuna hneppta niður í vestið.
„Í dag gerði ég breytingu á og kom í gallabuxum. Manneskja reyndi að stöðva mig með þeim orðum að ég mætti ekki ganga í þingsal í gallabuxum,“ segir Jón.
Hann segir sér hafa brugðið en að hann hafi í stað þess að hlaupa heim og skipta um föt gengið rösklega til sætis og sest. Þá hafi hann komið auga á aðra gallabuxnaklædda þingmenn og honum hafi létt við það.
„En þegar leið á fundinn fékk ég skilaboð frá þingflokksformanni að ónefndur þingmaður hefði kvartað yfir því að ég væri í gallabuxum,“ segir Jón.
Ljóst er að honum þyki ekki mikið koma til þessara tilburða þessa ónefnda þingmanns og svo virðist sem að honum hafi strax dottið leið í hug til að klekkja á honum.
„Kannski ég mæti einn daginn í Obi Wan Kenobi búningnum mínum? Hann er mjög snyrtilegur og líka töff og er þar að auki Íslenskt handverk,“ segir Jón.