Leikurinn hefst klukkan 20:10 að íslenskum tíma og fer fram í Le Mans. Borgin er hvað þekktust fyrir akstursíþróttir og hafa Frakkarnir leikið sér með þá staðreynd í aðdraganda leiksins mikilvæga í kvöld.
𝘽𝙞𝙚𝙣 𝙣𝙚́𝙜𝙤𝙘𝙞𝙚𝙧 𝙡𝙚 𝙫𝙞𝙧𝙖𝙜𝙚 𝙄𝙨𝙡𝙖𝙣𝙙𝙖𝙞𝙨 🏎️🇮🇸
— Equipe de France Féminine (@equipedefranceF) February 25, 2025
France-Islande c’est ce soir au Mans 🏁
Coup d’envoi à 21h10 sur @W9 📺#FiersdetreBleues pic.twitter.com/J6nIJWlzR1
Ísland er með eitt stig eftir markalausa jafnteflið við Sviss ytra á föstudaginn en Frakkland vann þá 1-0 heimasigur gegn Noregi. Liðin fjögur leika í riðli 2 í A-deild.
Þessi leiktíð í Þjóðadeildinni er gríðarlega mikilvæg varðandi möguleika Íslands á að komast á HM í fyrsta sinn, árið 2027. Ef liðið forðast fall (neðsta lið riðilsins fellur beint í B-deild og liðið í 3. sæti fer í umspil við lið úr B-deild) eykur það verulega líkurnar á að komast á HM. Það er vegna þess að leiðin í gegnum HM-umspil á næsta ári gæti þá orðið við lægra skrifaðar þjóðir úr B- og C-deild.

Laurent Bonadei, sem tók við sem aðalþjálfari Frakka síðasta haust eftir að hafa verið aðstoðarmaður Hervé Renard, býst við snúnum leik gegn Íslandi í kvöld. Franska liðið er í 11. sæti heimslistans, aðeins þremur sætum fyrir ofan Ísland.
„Þetta verður líkamlegur leikur við lið sem er þétt fyrir og gefur fá færi á sér. Þær voru að gera jafntefli við Sviss og spila núna annan útileik. Eflaust vilja þær reyna að bæta við stigafjöldann, án þess að fá á sig mark, áður en þær spila svo þrjá heimaleiki í síðustu fjórum leikjum sínum,“ sagði Bonadei.
„Þær eru góðar í að snúa vörn í sókn og munu horfa til skyndisókna. Sveindís Jónsdóttir er ein á toppnum. Hún verst lítið en er alltaf vakandi fyrir tækifærum til að nýta hraða sinn. En þær munu þurfa að taka áhættur,“ sagði Bonadei á blaðamannafundi í gær.

Bonadei segir að allir leikmenn franska liðsins séu klárir í slaginn, þar á meðal miðvörðurinn frábæri Wendie Renard sem missti af leiknum við Noreg vegna meiðsla. Vegna þess hve stutt er á milli leikja segir þjálfarinn ljóst að breytingar verði gerðar á byrjunarliðinu.
Ísland hefur einu sinni fagnað sigri gegn Frakklandi, í tólf leikjum, en það var 1-0 sigurinn eftirminnilegi á Laugardalsvelli sumarið 2007, í aðdraganda þess að Ísland komst í fyrsta sinn á stórmót.
Síðast mættust liðin í lokakeppni EM í Englandi árið 2022, þar sem Dagný Brynjarsdóttir jafnaði metin af vítapunktinum í blálokin, í 1-1 jafntefli sem þó dugði Íslandi ekki til að komast upp úr sínum riðli.
Leikur Frakklands og Íslands í kvöld hefst klukkan 20:10 og verður í beinni textalýsingu á Vísi en leikurinn er sýndur á RÚV 2.