Liam Roberts, markvörður Millwall, var rekinn af velli snemma leiks vegna grófs brots á Jean-Philippe Mateta, framherja Palace. Roberts óð út úr marki sínu, sparkaði boltanum í burtu en fór svo með sólann í andlitið á Mateta.
Oliver rak Roberts ekki af velli fyrr en VAR-dómarinn blandaði sér í málið. Oliver var sendur til að skoða atvikið á skjá á hliðarlínunni og ákvað þá að gefa Roberts rauða spjaldið.
Oliver var víða gagnrýndur fyrir að hafa ekki rekið Roberts strax af velli og hann fær ekki verkefni í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Hann dæmir hins vegar stórleik Bayern München og Bayer Leverkusen í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Hinn fertugi Oliver hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu, meðal annars eftir að hann rak Arsenal-manninn unga Myles Lewis-Skelly út af í leik gegn Wolves í lok janúar. Oliver bárust morðhótanir eftir leikinn.
Hann var einnig gagnrýndur fyrir frammistöðu sína í borgarslag Everton og Liverpool í síðasta mánuði. Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, var úrskurðaður í tveggja leikja bann fyrir mótmæli eftir leikinn á Goodison Park.