Enski boltinn

Hituðu upp fyrir Liverpool með því að ná Man. City að stigum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruno Guimaraes fagnar sigurmarki sinu í kvöld með Joelinton.
Bruno Guimaraes fagnar sigurmarki sinu í kvöld með Joelinton. AP/Zac Goodwin

Newcastle komst í kvöld upp að hlið Manchester City í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta eftir 1-0 útisigur á West Ham.

Newcastle fagnaði því sigri í Lundúnum en liðið mætir aftur til höfuðborgarinnar um næstu helgi þegar fram er úrslitaleikur Liverpool og Newcastle um enska deildabikarinn.

Bruno Guimaraes tryggði Newcastle öll stigin í kvöld þegar hann skoraði af stuttu færi eftir flotta sendingu Harvey Barnes á 63. mínútu.

Þetta var þriðja deildarmark Guimaraes á leiktíðinni en hann skoraði einnig í sigri á Leicester í desember og í tapi á móti Bournemouth í janúar.

Newcastle var sterkara liðið á móti bitlausu West Ham liði og þetta var sanngjarn sigur Newcastle manna þrátt fyrir engan stórleik hjá þeim.

Þetta var líka risasigur í baráttunni um sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð en fimm efstu sætin gefa væntanlega sæti þangað. Þetta var auk þess lífsnauðsynlegur sigur enda aðeins annar deildarsigur Newcastle í síðustu fimm leikjum.

Newcastle fór upp í sjötta sætið en komst ekki ofar þrátt fyrir að vera með jafnmörg stig og Manchester City þar sem City er með mun betri markatölu.

West Ham var búið að vinna tvo leiki í röð og gat komist upp fyrir Manchester United, Tottenham og Everton með sigri. Það tókst ekki og West Ham er áfram í sextánda sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×