Fótbolti

Meiðslin muni að öllum líkindum teygja sig inn í landsleikjapásuna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cole Palmer mun að öllum líkindum missa af landsleikjum Englands um næstu helgi.
Cole Palmer mun að öllum líkindum missa af landsleikjum Englands um næstu helgi. Mike Hewitt/Getty Images

Cole Palmer, leikmaður Chelsea, mun að öllum líkindum missa af leikjum enska landsliðsins í komandi landsleikjaglugga.

Palmer var ekki í leikmannahópi Chelsea er liðið tapaði 1-0 gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í dag, en hann meiddist á æfingu á dögunum.

Þetta var í fyrsta skipti síðan í apríl á síðasta ári sem Chelsea er án Palmers, en hann hefur verið í algjöru lykilhlutverki hjá þeim bláklæddu undanfarna mánuði.

Það kom því líklega engum á óvart þegar nafn hans birtist á blaðinu þegar Thomas Tuchel, nýráðinn landsliðsþjálfari Englands, opinberaði enska landsliðshópinn í fyrsta skipti.

Enzo Maresca, þjálfari Chelsea, hefur hins vegar ekki trú á því að Palmer geti tekið þátt í leikjum Englands gegn Albaníu og Lettlandi.

„Ef ég á að vera hreinskilinn þá held ég að hann verði ekki klár í landsleikina,“ sagði Maresca á blaðamannafundi eftir tapið gegn Arsenal.

„Hann meiddist á æfingu í gær og þetta eru vöðvameiðsli. Hann þarf að fara í myndatöku og það verður ekki fyrr en á mánudagsmorgun,“ bætti Maresca við.

England leikur tvo heimaleiki í komandi landsleikjaglugga. Fyrri leikurinn er gegn Albaníu næstkomandi föstudag og sá seinni gegn Lettlandi á mánudaginn eftir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×