Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir að venju fyrir um gengi liðanna í Bestu deild karla með árlegri spá sinni fyrir mótið. Keppni í deildinni hefst með leik Íslandsmeistara Breiðabliks og Aftureldingar laugardaginn 5. apríl.
Íþróttadeild spáir Vestra 10. sæti Bestu deildarinnar í sumar og að Ísfirðingar endi í sama sæti og á síðasta tímabili.
Annað árið í röð á Ísafjörður lið í efstu deild. Eftir að hafa tryggt sér sæti í Bestu deildinni í gegnum umspil lék Vestri loks við stóru strákana síðasta sumar. Og þeir leika aftur við þá í sumar eftir að hafa haldið sér uppi. Hagstæðari markatala en HK hélt þeim réttu megin við strikið.

Það var vel af sér vikið hjá Davíð Smára Lamude og strákunum hans að þrauka síðasta tímabil. Mikil meiðsli herjuðu á leikmannahópinn, Vestri missti hinn stórgóða Tarik Ibrahimagic til Víkings um mitt mót og lék ekki fyrsta leikinn á Ísafirði fyrr en 22. júní. En Vestramenn voru með bestu vörnina af þremur neðstu liðunum og mörk Andra Rúnars Bjarnasonar tryggðu Vestra sigra á HK og Fram í úrslitakeppninni. Síðustu tveir leikirnir töpuðust en það kom ekki að sök.

Andri Rúnar er horfinn á braut og sömu sögu er að segja af Benedikt Warén, manninum sem hélt sóknarleiknum uppi meðan Andri Rúnar var meiddur. Vestri er því búinn að missa bæði marka- og stoðsendingahæsta mann sinn frá síðasta tímabili.

Skörð þeirra verða vandfyllt en til að fylla í þau hefur liðið meðal annars fengið Daða Berg Jónsson, sem nýtti sínar mínútur hjá Víkingi í fyrra vel, og hinn hávaxna Kristoffer Grauberg Lepik. Þá var Vladimir Túfegdzic sjóðheitur í Lengjubikarnum. Ekkert lið skoraði færri mörk en Vestri í Bestu deildinni í fyrra og Ísfirðingar þurfa að bæta í á því sviði í sumar. Mikið mun mæða á Grauberg og Daði fær tækifæri til að sýna sig og sanna á stærsta sviðinu.
Afar mikilvægt var fyrir Vestra að halda Eiði Aroni Sigurbjörnssyni, sem lék vel í fyrra, og þá verða Gustav Kjeldsen og Jeppe Pedersen með frá byrjun núna. Guy Smit er svo kominn í markið í stað Williams Eskilinen sem átti köflótt tímabil í fyrra. Síðasta tímabil var sannarlega köflótt hjá Smit í KR í fyrra en hann er reyndur markvörður og þekkir deildina vel. Þá var fyrirliði Vestra, Elmar Atli Garðarsson, dæmdur í tveggja mánaða bann fyrir brot á veðmálareglum KSÍ.

Vestramenn mæta ýmsum hindrunum þegar kemur að aðstöðunni til æfinga fyrir vestan en núna verða þeir með heimavöllinn sinn frá byrjun. Vestri vann reyndar jafn marga leiki þar og á AVIS-velli Þróttar á síðasta tímabili svo þar er tækifæri til bætingar.
Leikmannahópur Vestra hefur tekið talsverðum breytingum og missirinn í Andra Rúnari og Benedikt er mikill. En Davíð hefur sannað færni sína í krefjandi aðstæðum og er eflaust reynslunni ríkari frá síðasta tímabili.

Vestramanna bíður erfitt verkefni í sumar og ýmsum spurningum um liðið er enn ósvarað. En skipulagið er gott, þjálfarinn fær og ef nýju mennirnir reynast góður liðsauki gætu Ísfirðingar aftur brosað í mótslok í haust.