Fótbolti

„Vil ekki vinna á kostnað þess að það verði engar fram­farir“

Aron Guðmundsson skrifar
Arnar stýrir hér æfingu landsliðsins á Spáni á dögunum.
Arnar stýrir hér æfingu landsliðsins á Spáni á dögunum. Mynd: KSÍ

Spenningurinn hefur gert ræki­lega var um sig hjá lands­liðsþjálfaranum Arnari Gunn­laugs­syni sem stýrir sínum fyrsta leik með ís­lenska karla­lands­liðinu í fót­bolta í kvöld í fyrri leik liðsins gegn Kó­sovó í um­spili Þjóða­deildarinnar. Undir­búningurinn fyrir þennan fyrsta leik hefur verið knappur.

Ís­lenska lands­liðið heimsækir Kó­sovó í Pristina í kvöld og það er upp­selt á leikinn og um fjórtán þúsund Kósóvar sem munu styðja heima­menn áfram. Það er í kvöld sem veg­ferð ís­lenska lands­liðsins hefst form­lega undir stjórn Arnars sem hefur haft í nægu að snúast með liðið á Spáni undan­farna daga því tíminn sem liðið hefur saman fram að fyrsta leik hefur verið knappur.

Klippa: Viðtal við Arnar landsliðsþjálfara

„Fiðringurinn er kominn, sér­stak­lega núna þegar að við erum lentir í Kó­sovó, mættir hingað á völlinn og búnir að kíkja á grasið. Það er óneitan­lega kominn mikill spenningur í bæði mig og hópinn. Undir­búningurinn hefur verið góður, ég er mjög ánægður með þessa tvo til þrjá daga sem við höfum haft saman. Mikið af upp­lýsingum, langir fundir og góðar æfingar. Það er allt klárt.“

Þetta eru aðeins nokkrir dagar sem þið hafið saman fram að þessum fyrsta leik. Hverju hefurðu þurft að koma á fram­færi á þessum dögum, hverjar eru áherslurnar?

„Ég þarf bara að koma öllu frá mér. Reyni að koma inn fimm árum af upp­lýsingum í þrjá fundi og tvær æfingar. Strákarnir hafa verið frábærir í þessari stöðu. Það er erfitt að hafa svona knappan tíma til að koma inn miklum upp­lýsingum en við verðum ein­hvers staðar að byrja. Þetta er núll­punktur núna. Við byrjum á þessu. Menn gera fullt af mistökum í leiknum gegn Kó­sovó í kvöld og læra af því, við höldum svo áfram og munum gera mistök í júní glugganum en svo verðum við klárir í septem­ber þegar að undan­keppni HM hefst.“

En hvað vill Arnar sjá í leik liðsins í kvöld?

„Ég vil sjá að það sé ljós eftir leikinn að við getum svo haldið áfram í júní gluggann, að það verði fram­farir og að við höfum séð eitt­hvað DNA, ein­hverja heildar­mynd og byggjum svo ofan á það. Auðvitað viljum við vinna leikinn, engin spurning. Viljum komast áfram í þessu tveggja leikja ein­vígi. Þetta er ekki einn leikur og svo búið. Hvað þýðir að ná í góð úr­slit í í þessum fyrri leik? Kannski er jafn­tefli góð úr­slit, auðvitað vil ég vinna en ég vil samt ekki vinna á kostnað þess að það verði engar fram­farir. Þá á ég við að þetta verð ein­hver heppnis­sigur og að við getum ekki tekið neitt með okkur í næsta leik. Ég er svolítið að horfa í sterka frammistöðu í þessum fyrri leik gegn Kó­sovó, að strákarnir séu nógu hugaðir til að reyna fram­fylgja því sem við höfum gert á æfingum og fundum hingað til.“

Bein út­sending og opin dag­skrá hefst frá leik Kó­sovó og Ís­lands á Stöð 2 Sport klukkan korter í átta í kvöld.


Tengdar fréttir

Er betra að vinna eða tapa í kvöld?

Væri kannski best fyrir Ísland að tapa fyrir Kósovó í kvöld? Myndi það koma liðinu nær eða fjær EM 2028? Hvaða máli skiptir þetta umspil í Þjóðadeildinni eiginlega?

Svona var blaða­manna­fundur Arnars

Vísir var með beina útsendingu frá blaðamannafundi KSÍ þar sem Arnar Gunnlaugsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins, og fyrirliðinn Orri Steinn Óskarsson ræddu leik Íslands og Kósovó sem fram fer á morgun, fimmtudag.

Mikael meiddur og ekki með gegn Kósovó

Mikael Neville Anderson mun ekki geta tekið þátt í komandi leikjum íslenska karlalandsliðsins í fótbolta gegn Kósovó vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×