Fótbolti

Tók Ronaldo-fagnið beint fyrir framan hann

Sindri Sverrisson skrifar
Óvíst er hvernig Cristiano Ronaldo leið þegar Rasmus Höjlund fagnaði með hans hætti, beint fyrir framan hann.
Óvíst er hvernig Cristiano Ronaldo leið þegar Rasmus Höjlund fagnaði með hans hætti, beint fyrir framan hann. Samsett/Getty

Rasmus Höjlund, framherji Manchester United, segir að Cristiano Ronaldo hafi lengi verið sitt átrúnaðargoð. Þess vegna nýtti hann tækifærið í gærkvöld til að fagna eins og Ronaldo, beint fyrir framan goðið sitt, í 1-0 sigri Danmerkur gegn Portúgal í Þjóðadeildinni.

Eftir mikla eyðimerkurgöngu með United náði Höjlund loks að skora í síðasta leik liðsins og hann endurtók leikinn á Parken í gærkvöld, eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Í þetta sinn tók hann „siiiiiu“-fagnið sem flestir þekkja, úr smiðju Ronaldo, á meðan portúgalska goðið stóð með hendur á mjöðm og horfði á.

„Mig hefur alltaf dreymt um að taka Ronaldo-fagnið, sérstaklega í leik á móti honum. Ekki til að nudda honum upp úr því eða eitthvað slíkt. Þvert á móti til að sýna virðingu. Ég er jú mikill aðdáandi,“ sagði Höjlund eftir leik í gær, samkvæmt Ekstra Bladet.

Sá mynd af Ronaldo í nærbuxum og vildi verða eins

„Ég varð United-aðdáandi út af honum og ég fór að fylgjast með Real Madrid og Juventus út af honum.

Ég man að ég sá mynd af honum þar sem hann lá í nærbuxum og ég hugsaði með mér að svona vildi ég líta út, svo ég fór að gera armbeygjur og magaæfingar á hverjum degi áður en ég fór að sofa. Hann hefur haft svo mikla þýðingu fyrir mig,“ sagði Höjlund og leyndi ekki aðdáun sinni á Ronaldo.

„Ég fór á leik árið 2009 þar sem hann skoraði úr aukaspyrnu og eftir það hef ég verið mikill aðdáandi. Besti vinur minn var líka á vellinum núna og við höfum alltaf haldið mikið upp á hann,“ sagði Höjlund ánægður.

Ballið er ekki búið því liðin mætast aftur í Lissabon á sunnudaginn. Sigurvegari einvígisins kemst í undanúrslit Þjóðadeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×