Enski boltinn

Sagður hafa samið við Real og fá 2,2 milljarða á ári

Sindri Sverrisson skrifar
Trent Alexander-Arnold gæti kvatt Liverpool með Englandsmeistaratitli í vor.
Trent Alexander-Arnold gæti kvatt Liverpool með Englandsmeistaratitli í vor. AFP/Oli Scarff

Það virðist endanlega frágengið að bakvörðurinn Trent Alexander-Arnold gangi í raðir Evrópumeistara Real Madrid í sumar þegar samningur hans við Liverpool rennur út.

Vistaskipti Alexander-Arnold hafa lengi legið í loftinu en Sky Sports í Sviss segir að nú sé loks í höfn samkomulag við Real Madrid um samning sem talið sé að sé til fimm ára og taki gildi 1. júlí.

Miðillinn segir að Alexander-Arnold fái 15 milljónir evra í árslaun, eða hátt í 2,2 milljarða króna, auk þess sem að hans bíði umtalsverð fjárhæð við undirskrift samningsins – upphæð sem kalla megi kaupverð þó að Real þurfi ekki að borga Liverpool fyrir kappann.

Alexander-Arnold, sem er 26 ára, er uppalinn í Liverpool og hefur spilað fyrir liðið allan sinn feril.

Sky segir að Liverpool sé með Leverkusen-manninn Jeremie Frimpong í sigtinu sem mögulegan arftaka. Þessi 24 ára hollenski landsliðsmaður hefur spilað í Þýskalandi frá árinu 2021 en ólst upp hjá Manchester City.

Arne Slot, stjóri Liverpool og landi Frimpongs, er sagður ætla að ræða við fulltrúa leikmannsins á komandi vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×