Fótbolti

Brassar vilja fá Ancelotti til bjargar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Carlo Ancelotti hefur aldrei þjálfað landslið á sínum langa og farsæla ferli.
Carlo Ancelotti hefur aldrei þjálfað landslið á sínum langa og farsæla ferli. getty/Luca Amedeo Bizzarri

Brasilíska knattspyrnusambandið hefur mikinn áhuga á að ráða Carlo Ancelotti sem þjálfara landsliðsins fyrir heimsmeistaramótið á næsta ári.

Brasilía tapaði 4-1 fyrir heimsmeisturum Argentínu í undankeppni HM í vikunni og hefur aðeins unnið sjö af sextán leikjum undir stjórn Dorivals Júnior.

Áhugi Brassa á Ancelotti er ekki nýr af nálinni en þeir reyndu að ráða hann 2022 og 2023. Þeir ætla nú að gera aðra tilraun samkvæmt The Athletic.

Ancelotti hefur stýrt Real Madrid síðan 2021 og gert meðal annars gert liðið að Evrópumeisturum í tvígang. Nokkrir brasilískir landsliðsmenn leika með Real Madrid, meðal annars Vinícius Júnior.

Brasilía hefur aldrei verið með erlendan landsliðsþjálfara en það gæti breyst ef knattspyrnusambandinu tekst að landa hinum margreynda Ancelotti.

Þrátt fyrir að hafa náð frábærum árangri með Real Madrid er ekki víst að Ancelotti verði áfram með liðið. Xabi Alonso, knattspyrnustjóri Bayer Leverkusen, hefur verið orðaður við Real Madrid og átt í viðræðum við félagið samkvæmt The Athletic.

Brasilía er í 4. sæti Suður-Ameríkuriðilsins í undankeppni HM. Liðið er sex stigum á undan Venesúela sem er í 7. sætinu, sem fer í umspil, þegar fjórir leikir eru eftir. Það er því allt sem bendir til þess að Brassar verði með á HM á næsta ári eins og þeir hafa verið á öllum hinum 22 heimsmeistaramótunum. Engin þjóð hefur oftar unnið HM en Brasilía, eða fimm sinnum, síðast 2002.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×