Víkingar komust í 2-0 áður en KR-ingar náðu að svara. Helgi Guðjónsson skoraði fyrsta mark leiksins á 9. mínútu og Erlingur Agnarsson kom þeim svo í 2-0.
Á 28. mínútu kom upp atvik sem leit virkilega illa út við fyrstu sýn en þá fór KR-ingurinn Stefán Árni Geirsson niður eftir að hafa verið rifinn niður í skyndisókn af Karli Friðleifi Gunnarssyni. Brotið leit ekki vel út og óttast var að Stefán væri ökklabrotinn og var hann borinn af velli og síðan keyrður á brott í sjúkrabíl.
Meiðslin reyndust þó ekki jafn alvarleg og óttast var en Stefán fór þó engu að síður úr ökklalið og mun væntanlega missa af fyrstu vikum Íslandsmótsins.
Eiður Gauti Sæbjörnsson náði að minnka muninn fyrir KR í uppbótartíma fyrri hálfleiks en Víkingar settu þrjú næstu mörk og unnu því að lokum öruggan 5-1 sigur.