Markið má sjá á vef TV 2 með því að smella hér en Hilmir skoraði það af stuttu færi eftir undirbúning Edvin Austbö.
Það dugði þó skammt því Viking tapaði leiknum, gegn nýliðum Vålerenga, 3-1. Hilmir skoraði jöfnunarmarkið á 63. mínútu, skömmu eftir að Martin Roseth hafði fengið sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Fyrirliðinn Henrik Björdal kom Vålerenga hins vegar yfir aftur strax á 66. mínútu og skoraði svo sitt annað mark og lokamark leiksins á 79. mínútu.
Hilmir, sem er 21 árs, þarf því að bíða eftir fyrsta sigrinum með Viking, eftir að hafa áður spilað með Kristiansund og Tromsö í norsku deildinni, sem lánsmaður frá Venezia á Ítalíu. Hann var keyptur til Viking í vetur.
Með marki sínu í dag hefur Hilmir skorað í þremur leikjum á tíu dögum því í landsleikjahléinu skoraði hann í báðum leikjum U21-landsliðsins á Spáni, í 3-0 sigri gegn Ungverjum og 6-1 sigri gegn Skotum.