Enski boltinn

„Ég er 100% pirraður“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Arteta ræðir hér við Darren England dómara eftir leik.
Arteta ræðir hér við Darren England dómara eftir leik. Vísir/Getty

Arsenal og Everton gerðu 1-1 jafntefli í ensku úrvalsdeildinni í gær og minnkuðu þar með enn frekar vonir Arsenal um að ná toppsæti deildarinnar af Liverpool. Jöfnunarmark Everton kom úr afar umdeildri vítaspyrnu. 

Eftir 1-1 jafntefli Everton og Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í gær var talað um fátt annað en vítaspyrnuna sem Iliman Ndiaye skoraði úr fyrir Everton. Áður hafði Leandro Trossard komið Arsenal í forystuna.

Vítaspyrnan var dæmt eftir viðskipti Jack Harrison og Myles Lewis-Skelly en dómarinn Darren England var ekki lengi að benda á punktinn og dómurinn var síðan staðfestur af VAR.

Vítaspyrnan var í besta falli vafasöm og var knattspyrnustjóri Arsenal, Mikel Arteta, allt annað en sáttur í leikslok.

„Ég er 100% pirraður,“ sagði Arteta í viðtali við BBC eftir leik.

„Við vorum algjörlega með stjórn á leiknum. Við vorum að vonast til þess að halda yfirburðunum áfram í seinni hálfleik en upp úr þurru ákveður dómarinn að dæma vítaspyrnu.“

Mark Everton kom á upphafsmínútum síðari hálfleiks og virtist slá Arsenal út af laginu.

„Ég er búinn að sjá þetta fimmtán sinnum, að mínu mati er þetta aldrei víti. Þeir eru mjög góðir í því sem þeir gera. Við gáfum þeim margar klaufalegar aukaspyrnur en þeir sköpuðu ekki neitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×