Viðskipti innlent

Tolla­hækkanirnar geti þjappað Evrópu og Kína betur saman

Lovísa Arnardóttir skrifar
Baldur segist alltaf hafa mikla trú á samtali og það gildi í tollastríði eins og öðru.
Baldur segist alltaf hafa mikla trú á samtali og það gildi í tollastríði eins og öðru. Vísir/Vilhelm

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segist hafa verið skammaður fyrir að vilja halda góðu sambandi við Bandaríkin. Það sé þó mikilvægt að gera það. Best sé fyrir Íslendinga að bíða og sjá hvernig tollastríðið þróist. Baldur segir mögulegar afleiðingar tollastríðsins að spenna minnki á milli Evrópu og Kína.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í síðustu viku um víðtækar tollahækkanir á þau lönd sem Bandaríkin eiga í viðskiptum við. Tíu prósenta grunntollur tók gildi fyrr í vikunni og hærri tollar á sum lönd svo í dag. Trump samþykkti svo síðar í dag 90 daga hlé á tollaaðgerðum gagnvart um 75 löndum en hækkaði á sama tíma tolla gegn Kína. Kínverjar tilkynntu sjálfir um hærri tolla gegn Bandaríkjunum í vikunni.

Baldur ræddi þessi mál í Reykjavík síðdegis í dag en hann er staddur í Prag til að ræða öryggis- og varnarmál. Baldur segir Bandaríkin sögulega séð hafa verið viljugri til að setja á tolla en til dæmis Evrópuríki. Það sýni sagan og þegar nýir forsetar hafi tekið við í Bandaríkjunum hafi þeir iðulega hækkað tolla á þær iðngreinar sem stórar eru í þeim ríkjum Bandaríkjanna þar sem þeir þurfa á stuðningi að halda.

Svarar af fullri hörku

Bush yngri hafi til dæmis sett á mikla tolla en þó ekkert í líkingu við það sem Trump hefur tilkynnt um. Baldur segir Kína reyna að ýta við Trump, sem hafi svarað því af fullri hörku.

„Það er ekki í manna minnum annað eins tollastríð,“ segir Baldur og að það þurfi líklega að leita allt til þriðja eða fjórða áratugs síðustu aldar eftir svo háum tollum og tollastríði.

Baldur segir Kínverja þá fyrstu til að bregðast við af hörku. Evrópusambandið hafi líka brugðist við en þó ekki af sömu hörku og Kínverjar. Menn óttist tollastríð og hvernig verði að ná utan um það. Hann segir líka áhugavert að vita að Evrópusambandið hafi boðist til þess að afnema alla tolla ef Bandaríkin gerðu það sama, áður en Trump lagði tolla á Evrópu.

Spurður hvort það megi eitthvað lesa í að Rússland, Hvíta-Rússland, Kúba og Norður-Kórea séu ekki á lista Trump segir Baldur það athyglisvert. Trump hafi verið að reyna að ná samkomulagi við löndin um aðra hluti, kjarnorkuvopn í Norður-Kóreu, auk þess sem hann hafi reynt að koma á friði í Úkraínu og vilji mögulega ekki styggja til dæmis Rússa í þeim viðræðum.

Baldur segir Trump ekki hafa náð neinum árangri í þessum viðræðum en það sé líklega Hann segir Bandaríkin líta á Kína sem sinn helsta keppinaut, ekki bara í viðskiptum, heldur líka í öryggis- og varnarmálum. Bandaríkin vilji draga úr þenslustefnu Kína og það sé vaxandi samkeppni landanna á milli.

Minni spenna á milli Kína og Evrópu

„Maður sér strax vísbendingar um að Evrópuríki og Kína fari að vinna náið saman. Það var orðin heilmikil spenna á milli Evrópuríkja og Kína,“ segir Baldur og að hann skynji að það sé verið að reyna að draga úr þessari spennu. Á sama tíma virðist spenna einnig minnka á milli Indlands og Kína. Þetta muni leiða til betri vináttusambands Kína við önnur ríki og Evrópu líka.

„Bandaríkin standa kannski uppi einir og sér og einangraðir við lokin.“

Hann segir meira þurfa til en tollastríð svo að til átaka komi á milli Kína og Bandaríkjanna. Deilurnar séu ekki af þeim toga og stjórnvöld í báðum ríkjum vilji forðast það í lengstu lög að lenda í beinum átökum. Þetta sé samt sem áður liður í samkeppni stórvelda heimsins.

Trump sé núna að „henda drullu í allar áttir“ og það geti þjappað öðrum betur saman með kínverskum stjórnvöldum. Evrópa hafi verið í liði með Bandaríkjunum áður en Trump tók við að draga úr útþenslustefnu Kína en þetta geti breytt því.

Trump hefur biðlað til almennings í Bandaríkjunum að sýna þessum aðgerðum þolinmæði. Áhrifin af tollastríðinu geti verið erfið til að byrja með en eigi svo að batna. Baldur segist ekki viss um að þolinmæði almennings í Bandaríkjunum sé óþrjótandi. Vöruverð muni hækka og líklega verða miklu hærra þegar kosið verður til þings í Bandaríkjunum eftir um tvö ár.

Muni koma Trump illa í næstu þingkosningum

„Það mun koma Trump illa,“ segir hann og að bandarískir kjósendur hafi mjög takmarkaða þolinmæði fyrir verðhækkunum, dýrtíð og verðbólgu.

Hvort Íslendingar eigi að bregðast við segir Baldur ekki ráðlagt fyrir íslensk stjórnvöld að fara í tollastríð við Bandaríkin. Það sé minni tollur á Íslendinga en önnur ríki og að menn verði að þola það. Þetta setji jafnvel íslensk útflutningsfyrirtæki í betri stöðu en mörg fyrirtæki í til dæmis Noregi eða Evrópu. Best sé að bíða og sjá hvernig þetta hefur áhrif.

„Ég held það sé mikilvægt, þó að ég sé stundum skammaður fyrir það, að reyna að halda góðu talsambandi við Bandaríkin,“ segir Baldur og að hann hafi alltaf haft trú á samtalinu og að það verði að reyna það áður en farið er í öðruvísi aðgerðir.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Baldur að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×