Viðskipti innlent

Spá aukinni verð­bólgu

Árni Sæberg skrifar
Una Jónsdóttir er hagfræðingur Landsbankans.
Una Jónsdóttir er hagfræðingur Landsbankans. Vísir/Vilhelm

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,77 prósent á milli mánaða í apríl og að verðbólga aukist úr 3,8 prósentum í 4,0 prósent. Aukningin á milli mánaða skýrist meðal annars af tímasetningu páskanna í ár.

Í pistli á vef bankans segir að deildin spái ekki auknum verðbólguþrýstingi, heldur skýrist hækkunin frekar af því að páskarnir voru fyrr á ferðinni í fyrra og hafi haft áhrif á flugfargjöld bæði í mars og apríl, en í ár geri deildin ráð fyrir að páskaáhrifin á flugfargjöld komi öll fram nú í apríl. 

Útsölurnar dregist á langinn

Við þetta megi bæta að janúarútsölur á fötum og skóm hafi dregist lengur en áður og verð á þessum vörum sé enn lægra en það var fyrir útsölurnar. Deildin geri ráð fyrir því að útsöluáhrifin gangi nú að fullu til baka. 

„Við gerum ráð fyrir að verðbólga lækki [svo] aftur í maí og mælist þá 3,7 prósent.“

Hægari hjöðnun fram undan

Eftir nokkuð öra hjöðnun síðustu tvö ár telji deildin að komið sé að kaflaskilum í baráttunni við verðbólguna og að það hægi á hjöðnun hennar. Hún spái því að vísitala neysluverðs hækki um 0,77 prósent í apríl, 0,29 prósent í maí, 0,48 prósent í júní og 0,17 prósent í júlí. 

Gangi spáin eftir verði verðbólga 4,0 prósent í apríl, 3,7 prósent í bæði maí og júní, og 3,4 prósent í júlí. Samkvæmt nýbirtri langtímaspá deildarinnar muni verðbólga svo aukast örlítið aftur eftir júlímánuð og enda árið í 3,8 prósentum. 

Það skýrist ekki síst af því að í ágúst og september detti miklar lækkanir út úr tólf mánaða taktinum sem hafi orsakast af því að gjöld nokkurra háskóla voru felld niður og skólamáltíðir í grunnskólum voru gerðar gjaldfrjálsar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×