Í frétt BBC kemur fram að Trump sé nú að stýra opnum ríkisstjórnarfundi og hafi sagt við upphaf fundarins að það hefðu verið einhverjir byrjunarörðugleikar en að gærdagurinn hafi verið stór á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum þar sem markaðurinn jafnaði sig lítillega á tapi í kjölfar tilkynningar hans um tollahækkanir í síðustu viku.
Sjá einnig: Hækkar tolla á Kína og samþykkir níutíu daga „hlé“ fyrir tugi ríkja
Þá sagði hann að fjárfestar væru ánægðir með það hvernig landinu sé stýrt og að það sé verið að reyna að „fá allan heiminn til að koma fram við Bandaríkin á sanngjarnan hátt“. Tekið er þó fram í frétt Guardian að markaðir hafi aftur tekið dýfu í dag og séu enn fyrir neðan það sem þeir voru áður en tollarnir voru tilkynntir. Stjórnvöld í Kína hafa svarað tollum Trump með sínum eigin tollum.
Mikið hefur verið fjallað síðustu daga um tollahækkanir Trump en hann hækkaði tolla á innfluttar vörur frá mörgum ríkjum, þar með Íslandi, um tíu prósent síðustu helgi. Hærri tollahækkanir tóku síðan gildi í gær en um kvöldið tilkynnti Trump að hann hefði samþykkt 90 daga hlé á tollaðgerðum fyrir 75 lönd sem svöruðu tollum hans ekki með mótvægisaðgerðum.
Evrópusambandið tilkynnti svo í dag að mótvægisaðgerðum þeirra, tuttugu prósenta tolli á ýmsar innfluttar vörur frá Bandaríkjunum, yrði frestað. Aðgerðirnar áttu að taka gildi 15. apríl en er frestað um 90 daga.