Van Dijk skoraði undir lokin og Liverpool með níu fingur á bikarnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Virgil van Dijk fagnar sigurmarki sínu gegn West Ham United.
Virgil van Dijk fagnar sigurmarki sínu gegn West Ham United. getty/Liverpool FC

Liverpool náði þrettán stiga forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með dramatískum sigri á West Ham United, 2-1, á Anfield í dag. Virgil van Dijk skoraði sigurmark Rauða hersins á 89. mínútu.

Andy Robertson skoraði sjálfsmark á 86. mínútu og jafnaði fyrir West Ham. Aðeins þremur mínútum síðar reis Van Dijk hæst í vítateig Hamranna og skallaði hornspyrnu Alexis Mac Allister í netið. Það reyndist sigurmarkið.

Liverpool náði forystunni á 18. mínútu þegar Luis Díaz skoraði með skoti af stuttu færi eftir sendingu frá Mohamed Salah. Þetta var átjánda stoðsending hans í ensku úrvalsdeildinni í vetur en hann hefur komið með beinum hætti að 45 mörkum sem er met í 38 leikja tímabili.

Skömmu eftir að Liverpool komst yfir varði Alisson tvívegis frá leikmönnum West Ham, fyrst frá Carlos Soler og svo frá Mohammed Kudus. Alphonse Aréola, markvörður Hamranna, varði svo frá Mac Allister eftir rúman hálftíma.

West Ham sótti í sig veðrið í seinni hálfleik og á 67. mínútu slapp fyrirliði liðsins, Jarrod Bowen, inn fyrir vörn Liverpool en Alisson varði.

West Ham jafnaði en fékk svo mark strax á sig eins og áður sagði. Gestirnir gáfust þó ekki upp og í uppbótartíma átti Niclas Füllkrug skalla í slána eftir fyrirgjöf frá Max Kilman. Allt kom þó fyrir ekki og Liverpool fagnaði sigri og liðið getur orðið Englandsmeistari um næstu helgi.

West Ham er í 17. sæti deildarinnar og hefur ekki unnið leik síðan 27. febrúar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira