Handbolti

Fimmti sigur strákanna hans Arnórs í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Auk þess að vera þjálfari Team Tvis Holstebro er Arnór Atlason aðstoðarmaður Snorra Steins Guðjónssonar með íslenska karlalandsliðið.
Auk þess að vera þjálfari Team Tvis Holstebro er Arnór Atlason aðstoðarmaður Snorra Steins Guðjónssonar með íslenska karlalandsliðið. vísir/vilhelm

Team Tvis Holstebro, sem Arnór Atlason stýrir, kemur fullt sjálfstrausts inn í úrslitakeppnina í danska handbolta eftir að hafa unnið síðustu fimm leiki sína í deildarkeppninni.

Lokaumferð dönsku úrvalsdeildarinnar fór fram í dag. Holstebro vann þá tólf marka sigur á Ringsted, 39-27. Holstebro endaði í 7. sæti deildarinnar en efstu átta liðin fara í úrslitakeppnina. Þeim er skipt niður í tvo riðla þar sem liðin mætast heima og að heiman.

Strákarnir hans Guðmundar Guðmundssonar í Fredericia unnu Skanderborg, 27-32. Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði eitt mark fyrir Fredericia sem endaði í 3. sæti.

Kristján Örn Kristjánsson skoraði fjögur mörk og gaf þrjár stoðsendingar fyrir Skanderborg sem lauk keppni í 5. sæti.

Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði eitt mark fyrir Bjerringbro/Silkeborg sem tapaði fyrir Grindsted, 30-33.

Ribe-Esbjerg steinlá fyrir Skjern, 39-29. Elvar Ásgeirsson skoraði þrjú mörk fyrir Ribe-Esbjerg sem endaði í 12. sæti og fer í umspil um að halda sér í úrvalsdeildinni. Ágúst Elí Björgvinsson varði fimm skot í marki Ribe-Esbjerg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×