Á 18. mínútu leiksins á Anfield sendi Salah boltann fyrir á Díaz sem skoraði með skoti af stuttu færi.
Þetta var átjánda stoðsending Salahs í ensku úrvalsdeildinni í vetur en auk þess hefur hann skorað 27 mörk.
Egyptinn hefur því komið með beinum hætti að 45 mörkum í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Það er met hjá einum leikmanni á 38 leikja tímabili í ensku úrvalsdeildinni. Fyrir leikinn deildu Erling Haaland og Thierry Henry metinu með Salah sem hefur nú slegið það.
Mo Salah breaks the record for most goals and assists in a 38-game Premier League season! 🇪🇬👑
— Sky Sports Premier League (@SkySportsPL) April 13, 2025
45 - Mohamed Salah (24/25)
44 - Thierry Henry (02/03)
44 - Erling Haaland (22/23) pic.twitter.com/U7ddUCjbHN
Salah á eflaust enn eftir að bæta við þessa tölfræði því Liverpool á enn eftir að leika sex deildarleiki á tímabilinu auk þess sem leikurinn gegn West Ham stendur enn yfir. Staðan í hálfleik er 1-0, Liverpool í vil.
Salah skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við Liverpool á föstudaginn. Gamli samningurinn hans átti að renna út í sumar og óvíst var hvort Salah yrði áfram hjá Liverpool.
Ef Liverpool vinnur West Ham nær liðið þrettán stiga forskoti á Arsenal á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.