Enski boltinn

Onana byrjar gegn Lyon en tíma­bilinu lokið hjá Zirkzee

Sindri Sverrisson skrifar
André Onana spilar á morgun en Joshua Zirkzee spilar ekki aftur fyrr en á næstu leiktíð.
André Onana spilar á morgun en Joshua Zirkzee spilar ekki aftur fyrr en á næstu leiktíð. Getty/Malcolm Couzens

Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, greindi frá því á blaðamannafundi í dag að André Onana yrði í marki United í leiknum mikilvæga við Lyon annað kvöld.

Onana var ekki í leikmannahópi United í 4-1 tapinu gegn Newcastle um helgina, eftir að hafa gerst sekur um skelfileg mistök í 2-2 jafnteflinu við Lyon í Frakklandi í síðustu viku.

United tekur á móti Lyon á morgun í seinni leik liðanna og getur með sigri komist í undanúrslit Evrópudeildarinnar; skrefi nær sigri í keppninni og um leið dýrmætu sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

„Onana spilar á morgun,“ staðfesti Amorim á fundinum í dag, eftir að hafa látið Tyrkjann Altay Bayindir spila leikinn við Newcastle um helgina.

Amorim staðfesti einnig að hollenski framherjinn Joshua Zirkzee myndi ekki spila meira með United á þessari leiktíð. Zirkzee meiddist í læri í tapinu gegn Newcastle.

„Hann spilar ekki meira á leiktíðinni, við skulum undirbúa hann fyrir þá næstu. Það er erfitt að kynjga þessu. Hann var að bæta sig í öllum hliðum leiksins. Svona lagað er erfitt fyrir alla leikmenn en hann verður að vera klár í það að jafna sig,“ sagði Amorim.

Það kemur því til með að mæða enn meira á Rasmus Höjlund á lokakafla leiktíðarinnar en þeir Chido Obi-Martin eru núna einu framherjarnir í leikmannahópi United. Höjlund hefur skorað átta mörk í 41 leik í öllum keppnum á þessari leiktíð en hinn 17 ára Obi-Martin bíður þess að skora sitt fyrsta mark.

Amorim sagði einnig frá því að Amad Diallo yrði væntanlega ekki orðinn klár í slaginn með United í þessum mánuði en að vonandi gæti hann spilað í allra síðustu leikjum tímabilsins, í maí.

Leikur United og Lyon er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 á morgun og hefst hann klukkan 19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×