Enski boltinn

Leicester kveður „geitina“ sem fé­lagið sótti í utandeildina

Sindri Sverrisson skrifar
Jamie Vardy hefur svo sannarlega ýmislegt til að gleðjast yfir þegar hann lítur til baka yfir tímann hjá Leicester.
Jamie Vardy hefur svo sannarlega ýmislegt til að gleðjast yfir þegar hann lítur til baka yfir tímann hjá Leicester. Getty/Leicester City FC

Enski markahrókurinn Jamie Vardy mun yfirgefa Leicester í sumar eftir þrettán ár hjá félaginu sem keypti hann á sínum tíma frá utandeildarfélagi. Vardy var meðal annars lykilmaður í ótrúlegum Englandsmeistaratitli Leicester árið 2016.

Vardy er orðinn 38 ára gamall en hefur ekki í hyggju að leggja skóna á hilluna. Hann mun hins vegar yfirgefa Leicester í sumar en þetta tilkynnti félagið í dag, nokkrum dögum eftir að fall liðsins úr úrvalsdeildinni var endanlega staðfest með 1-0 tapi gegn Liverpool á sunnudaginn.

Vardy hefur lítið getað gert við skelfilegu gengi Leicester í vetur en liðið hefur til að mynda tapað síðustu níu heimaleikjum sínum í röð án þess að skora eitt einasta mark, sem er met.

Leicester kveður hann hins vegar í myndbandi sem „geitina“ (e. GOAT), eða þann allra besta í sögu félagsins, eftir mögnuð afrek hans með félaginu.

Vardy hefur skorað 198 mörk og átt 69 stoðsendingar í 496 leikjum með Leicester. Þar á meðal skoraði hann 24 deildarmörk tímabilið magnaða þegar liðið varð, öllum að óvörum, Englandsmeistari 2016. Hann var valinn leikmaður tímabilsins það ár. Þá hlaut hann gullskóinn árið 2020 eftir að hafa skorað 23 mörk í úrvalsdeildinni.

Vardy hefur í vetur skorað sjö mörk í 31 leik í úrvalsdeildinni og alls skorað 143 mörk í 338 leikjum í deildinni. Auk þess hefur hann skorað 38 mörk í 98 leikjum í næstefstu deild.

„Jamie er einstakur. Hann er einstakur leikmaður og ekki síður einstök manneskja,“ sagði Aiyawatt Srivaddhanaprabha, stjórnarformaður Leicester, og bætti við:

„Hann mun alltaf eiga sess í hjörtum allra sem tengjast Leicester City og á svo sannarlega alla mína virðingu og kærleika. Ég verð endalaust þakklátur fyrir allt það sem hann hefur gefið þessu félagi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×