Enski boltinn

Fagnaði í bol með fullt af myndum af sjálfum sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andy Cook náði loksins markmiði sínu með Bardford City og var líka kátur með það.
Andy Cook náði loksins markmiði sínu með Bardford City og var líka kátur með það. @officialbantams

Andy Cook og félagar í Bradford City komust upp í ensku C-deildina í fótbolta um síðustu helgi og því var fagnað vel í borginni. Cook valdi líka mjög sérstakan klæðnað á sigurhátíðinni.

Bradford City náði þriðja sætinu á undan Walsall og fer því upp ásamt Doncaster Rovers og Port Vale. Það verður síðan barist um fjórða sætið í umspilinu.

Hinn 34 ára gamli Andy Cook skoraði 12 mörk í 22 leikjum á tímabilinu. Í sigurskrúðgöngu liðsins um götur Bradford þá mætti hann í bol sem á voru fullt af myndum af honum sjálfum.

„Ég var að leita að rétta tilefninu til að fara í þennan bol og af hverju ekki á svona stundu,“ sagði Andy Cook í viðtali á hátíðinni.

„Ég ákvað bara að láta slag standa,“ sagði Cook brosandi. Hann er búinn að vera lengi hjá félaginu og alltaf í D-deildinni.

„Þetta er risastórt og ég var meyr eftir markið sem tryggði okkur upp. Ég hef verið hér í fjögur ár og um leið og ég gekk inn um dyrnar þá komst ég að því að við vildum allir það sama,“ sagði Cook.

„Nú höfum við loksins náð þessu og ég mjög kátur með það,“ sagði Cook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×