Handbolti

Dóttir Lauge fæddist löngu fyrir tímann

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenskt handboltaáhugafólk þekkir Rasmus Lauge vel eftir framgöngu hans með hinu sigursæla landsliði Dana. Hann glímir nú ásamt fjölskyldu sinni við risavaxið verkefni utan vallar.
Íslenskt handboltaáhugafólk þekkir Rasmus Lauge vel eftir framgöngu hans með hinu sigursæla landsliði Dana. Hann glímir nú ásamt fjölskyldu sinni við risavaxið verkefni utan vallar. EPA-EFE/Tibor Illyes

Danska handboltastjarnan Rasmus Lauge hefur verið í hléi frá handbolta síðustu þrjá mánuði. Nú hafa þau Sabrina Jepsen, kona hans, greint frá ástæðunni en dóttir þeirra fæddist löngu fyrir settan dag og er enn á sjúkrahúsi.

Bjerringbro-Silkeborg, félagslið Lauge sem Guðmundur Bragi Ástþórsson leikur einnig með, tilkynnti í mars að Lauge yrði frá keppni í ótilgreindan tíma af fjölskylduástæðum.

Lauge og Jepsen hafa nú sjálf deilt ástæðunni á samfélagsmiðlum en þau áttu von á sínu þriðja barni í júní í sumar. Þau skrifuðu á Instagram:

„Seint um kvöld í febrúar urðum við foreldrar í þriðja sinn, þegar Anna litla kom í heiminn. Það gerðist með mjög óvæntum og dramatískum hætti, og allt, allt of snemma! Þetta hafa verið langir mánuðir af endalausum áhyggjum, svo miklum ótta, svefnlausum nóttum og fjölda tára!

Það er enn langt í það að við yfirgefum nýburagjörgæsluna en hvern dag erum við skrefi nær því að fara heim. Hún berst og við berjumst með henni.“

Með færslunni fylgdi mynd af dótturinni ungu. Fyrir eiga Lauge og Jepsen saman einn son og eina dóttur.

Lauge, sem er 33 ára, er þrautreyndur landsliðsmaður og varð Ólympíumeistari með Dönum í fyrra og heimsmeistari í þriðja sinn í janúar síðastliðnum, auk þess að hafa orðið Evrópumeistari árið 2012. Án hans hefur Bjerringbro-Silkeborg ekki gengið vel að undanförnu og er liðið án sigurs í fyrstu þremur leikjunum í sínum riðli í úrslitakeppninni í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×