Sandra Calvert-Lewin fékk yfir sig holskeflu ljótra athugasemda eftir að hún birti færslu þar sem hún kvaðst vera stolt af eiginmanni sínum eftir síðasta leik karlaliðs Everton á Goodison Park á sunnudaginn.
Sandra benti á að Calvert-Lewin hefði skorað þrjátíu deildarmörk á Goodison Park en aðeins tveir leikmenn hafa gert betur; Duncan Ferguson og Romelu Lukaku.
Calvert-Lewin hefur átt erfitt uppdráttar í vetur og aðeins skorað þrjú mörk í ensku úrvalsdeildinni og færsla eiginkonu hans fór misjafnt ofan í suma stuðningsmenn Everton.
Félagið hefur nú fordæmt ógnandi, rasísk og kvenfjandsamleg ummæli sem beindust að Söndru. Í yfirlýsingu Everton segir að félagið vinni náið með lögreglunni á Merseyside og ensku úrvalsdeildinni til að sjá til þess að netníðingarnir finnist.
Everton vann 2-0 sigur á Southampton er liðið kvaddi Goodison Park um helgina.
Karlaliðið byrjar að spila á nýjum leikvangi, Hill Dickinson vellinum, frá og með næsta tímabili. Goodison Park verður hins vegar heimavöllur kvennaliðs Everton.