Fótbolti

Yamal tekur við tíunni hjá Barcelona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ungstirnið Lamine Yamal lyftir spænska meistarabikarnum.
Ungstirnið Lamine Yamal lyftir spænska meistarabikarnum. getty/Gongora

Lamine Yamal hefur oftsinnis verið líkt við Lionel Messi og nú bendir flest til þess að hann taki við gamla treyjunúmeri Argentínumannsins hjá Barcelona.

Þrátt fyrir að verða ekki átján ára fyrr en í sumar hefur Yamal afrekað mikið á stuttum ferli, orðið tvöfaldur meistari með Barcelona í vetur og Evrópumeistari með spænska landsliðinu í fyrra, og hann hefur ítrekað verið borinn saman við Messi.

Argentínski snillingurinn er fyrrverandi fyrirliði Barcelona og markahæsti leikmaður í sögu félagsins.

Í þrettán ár klæddist Messi treyju númer tíu hjá Barcelona en búist er við því að Yamal taki hana eftir að hann skrifar undir nýjan samning við Katalóníufélagið í sumar.

Ansu Fati tók við tíunni hjá Barcelona af Messi en ekki hefur ræst úr honum eins og vonir stóðu til og óvissa ríkir um framtíð hans hjá félaginu.

Yamal hefur verið í treyju númer nítján hjá Barcelona en Messi var einnig með það númer á bakinu um tíma, bæði hjá Barcelona og argentínska landsliðinu.

Barcelona mætir Athletic Bilbao í lokaumferð spænsku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn. Börsungar eru orðnir spænskir meistarar en þeir unnu einnig bikarkeppnina og komust í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×