Atvinnulíf

Mannauðsmál lög­reglunnar: Ljótu málin taka á

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Við sjáum lögguna alls staðar en vitum lítið um lögregluembætti sem vinnustað. Sigurveig Helga Jónsdóttir mannauðstjóri LRH gefur okkur innsýn í mannauðsmál lögreglunnar, en LRH er fyrsta íslenska stofnunin til að setja sér sérstaka geðheilsustefnu.
Við sjáum lögguna alls staðar en vitum lítið um lögregluembætti sem vinnustað. Sigurveig Helga Jónsdóttir mannauðstjóri LRH gefur okkur innsýn í mannauðsmál lögreglunnar, en LRH er fyrsta íslenska stofnunin til að setja sér sérstaka geðheilsustefnu. Vísir/Anton Brink

„Það eru auðvitað þessi ofbeldismál og stóru erfiðu mál sem valda álagi, sérstaklega á lögreglumenn sem eru á vaktinni,“ segir Sigurveig Helga Jónsdóttir mannauðsstjóri Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu (LRH).

„Þess vegna er svo mikilvægt að lögreglumenn hafi tól í verkfærakistunni sinni til að hlúa að sjálfum sér og passa upp á sig. Því það að lenda í þessum álags aðstæðum er einfaldlega beintengt vinnuumhverfi lögreglunnar.“

LRH er fyrsta íslenska stofnunin til að setja sér sérstaka geðheilsustefnu og aðgerðaráætlun sem miðar af því að hlúa að geðheilbrigði á vinnustað með hinum ýmsu leiðum. 

Vegferðin hefur tekið nokkurn tíma en Sigurveig Helga segir ótrúlega margt jákvætt hafa komið út úr þeirri vinnu.

„Við vorum með undirbúningshóp þar sem málin voru rædd frá alls kyns hliðum og eitt af því sem kom jafnvel skemmtilega á óvart voru ýmsar hugmyndir um úrbætur sem snertu ekkert endilega þetta verkefni en voru frábærar hugmyndir. Til dæmis um nýliðaþjálfunina okkar.“

Að taka samtalið

Sigurveig Helga byrjaði hjá LRH árið 2021 en starfaði þar áður sem mannauðsstjóri Fangelsisstofnunar og enn fyrr sem sérfræðingur á mannauðssviði Reykjavíkurborgar. Sigurveig Helga nam sálfræði í Háskóla Íslands og meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá sama skóla.

Að vera lögga hlýtur að teljast ólíkt mörgum öðrum störfum og því forvitnilegt að heyra aðeins hvernig vinnustaður eins og LRH er með tilliti til mannauðsmála.

„Í mörgu eru áherslurnar okkar auðvitað þær sömu og almennt gildir um faglegar áherslur í mannauðsmálum hjá fyrirtækjum og stofnunum. Við höfum til dæmis staðið fyrir EKKO fræðslu og farið í EKKO átak til að svara ákalli starfsfólks,“ nefnir Sigurveig Helga sem dæmi.

(EKKO er skammstöfun fyrir einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og ofbeldi).

En það sem gerir okkar vinnustað óhefðbundinn er að hér er fólk alla daga á vakt þar sem það mögulega þarf að hlaupa inn og út úr alls kyns aðstæðum sem oft geta verið erfiðar.“

Að „slökkva“ síðan bara á sjálfum sér eftir að vakt lýkur og án áhrifa frá þeim aðstæðum sem vaktinni mögulega skapaði, er því nánast óvinnandi vegur fyrir lögreglumenn.

„Að hlúa að sálfélagslegum hluta lögreglumanna getur því verið ansi snúið. Eitt af því sem þó hefur verið boðið upp á í mörg ár er að hér geti fólk nýtt sér tíu sálfræðitíma á ári og fleiri ef þörf er á því,“ segir Sigurveig Helga.

Sem þó útskýrir að sálfræðiþjónustan virkar ekki eins og við sjáum í bíómyndunum; Þar sem yfirmaðurinn einfaldlega skikkar lögreglumanninn til að fara til sálfræðings.

„Nei við gerum þetta nú ekki alveg svoleiðis,“ segir Sigurveig Helga og brosir við samlíkingunni.

„En við leggjum áherslu á að okkar stjórnendur séu duglegir að hvetja sitt fólk til að nýta sér þessa þjónustu.“

Sigurveig Helga segir starf lögreglumanna þess eðlis að mikilvægt sé að hvetja til samtalsins um álagið sem getur fylgt ýmsum aðstæðum sem lögreglumenn upplifa í sínu starfi.

Í þeim efnum hafi tvær leiðir nýst sérstaklega vel.

Annars vegar félagsstuðningur sem hugsaður er sem jafningjastuðningur.

„Þessi stuðningur virkar þannig að á hverri vakt er einn fulltrúi sem hefur tekið það hlutverk að sér að vera sérstaklega vel vakandi yfir líðan sinna samstarfsmanna. Og grípa þá til stuðnings ef þarf. Fólkið sem hefur tekið að sér þessi hlutverk, eru einfaldlega lögreglur sem hafa verið til í þetta hlutverk og þá auðvitað fengið sérstaka þjálfun og handleiðslu til að geta sinnt hlutverkinu,“ segir Sigurveig Helga og bætir við:

„Þessi stuðningur hefur til dæmis virkað mjög vel þegar þessi stóru og erfiðu mál eru að koma upp.“

Önnur leið til stuðnings séu hópfundir.

„Þetta er önnur útfærsla á félagsstuðningi en þá eru skipulagðir hópfundir teknir, til dæmis eftir að lögreglumenn er komið til baka af vettvangi þar sem ljót eða erfið mál hafa verið í gangi. Hópurinn ræðir þá saman sem liðsheild en einstaklingssamtöl fylgja líka, allt eftir því hver þörfin eða óskir fólksins eru.“

Sigurveig Helga segir líka starf lögreglunnar ólíkt flestum öðrum störfum að því leitinu til að fólk geti síður farið heim og rætt málin við maka eða nánustu vini.

Að vera í lögreglunni þýðir starf þar sem fólk er ekkert endilega í stöðu til að geta fengið félagslega útrás utan vinnunnar, eins og margir aðrir geta gert. 

Að ræða ljót eða erfið mál í fjölskylduboðunum er einfaldlega ekki mögulegt. 

Þess vegna skiptir svo miklu máli að stuðningurinn sé til staðar innan vinnustaðarins.“

Það er margt öðruvísi við starf lögreglumanna miðað við önnur störf. Því í löggunni getur fólk verið að hlaupa inn og út úr alls kyns aðstæðum, oft erfiðum og ljótum og þau mál geta tekið á. Að taka samtalið saman í hópum eftir til dæmis erfiðar vettvangsferðir er dæmi um félagslegan stuðning innanhús sem virkar vel.Vísir/Anton Brink

Eftirsóknarverður vinnustaður

Aðdragandinn að því að embættið setti sér sérstaklega geðheilsustefnu segir Sigurveig Helga að hafi verið nokkur.

„Árið 2024 var mikið stefnumótunarár hjá embættinu. Í þessari vinnu settum við okkur alls kyns stefnumarkmið til ársins 2028 sem fela meðal annars í sér að vinnustaðurinn okkar sé eftirsóknarverður vinnustaður, sem býður upp á eins gott atvinnuumhverfi og hægt er hverju sinni,“ segir Sigurveig Helga og bætir við:

„Til þess að uppfylla þessi markmið þurfum við hins vegar að horfa til sálfélagslega hlutans ekkert síður en þann físíska. Þannig að til viðbótar við mannauðsmál eins og sálfræðitímana, fræðslu um EKKO og svo framvegis, vildum við taka þetta aðeins lengra: Tala opinskátt um geðheilbrigði og um leið læra betur á það hvaða tól og verkfæri geta nýst okkar fólki sem best til að hlúa að sjálfu sér.“

LRH fékk fyrirtækið Mental ráðgjöf til að leiða þá vinnu sem þurfti til að geðheilsustefnan yrði að veruleika. Í þeirri vinnu tóku þátt lögreglumenn og aðrir starfsmenn LRH, stjórnendur og millistjórnendur.

„Við funduðum nokkrum sinnum þar sem Mental stýrði umræðunni og hélt síðan utan um þá umræðu sem þar fór fram. Að sjá geðheilsuna mótast og verða til sem afurð frá þessari vinnu var svakalega gaman.“

Sigurveig Helga segir mikilvægt í svona vinnu eins og LRH hefur verið í undanfarið, að sem flestir á vinnustaðnum séu eigendur að verkefninu.

„Því þótt stefnan sé tilbúin þá nær hún ekki fram að ganga nema sem flestir á vinnustaðnum séu eigendur að verkefninu og verði þannig boðberar góðrar geðheilsu.“

En það er ekki nóg að ræða hlutina, heldur þarf að tryggja að þeir virki í raun.

„Hér eiga til dæmis allir að geta átt stuðning yfirmanns síns vísan. Hluti geðheilsustefnunnar er því að auka á fræðslu og þjálfun fyrir stjórnendur þannig að þeir læri betur að þekkja einkenni vanlíðunar og fái þjálfun í því hvernig á að taka samtöl um geðheilsuna. Sem oft geta verið erfið samtöl,“ segir Sigurveig Helga og bætir við:

„Þjálfunin felur í raun í sér að stjórnendur þjálfist í að verða geðheilbrigðisstjórnendur. Þar sem samtölin séu tekin, þótt enginn sé neyddur í eitt eða neitt.“

Geðheilsustefnan sem slík var síðan gefin út í mars og segir Sigurveig Helga næstu skref vera að klára þjálfun stjórnenda en í kjölfarið verði fræðsluátak um geðheilbrigði fyrir allt starfsfólk.

„Hluti af því átaki eru fræðsluerindi þar sem ráðgjafar Mental fræða fólk um geðheilsu og hvaða tól og tæki fólk getur nýtt sér til að hlúa að sjálfu sér og svo framvegis. Þetta eru þá fræðsluerindi á þeirra vegum.“

En hvað með stjórnendurna sjálfa; Þurfa þeir ekki líka stuðning?

„Jú og þetta fyrirkomulag hefur verið unnið þannig að allir yfirmenn eigi líka að eiga stuðning vísan frá sínum yfirmanni, líka topparnir.“

Geðheilsustefna LRH var gefin út í mars og segir Sigurveig Helga næstu skref vera að klára að fræða og þjálfa stjórnendur, til dæmis þannig að stjórnendur þekki betur einkenni vanlíðunar og geti tekið samtölin við sitt fólk um geðheilsu, þótt þau séu erfið. Í kjölfarið verður fræðsluátak um geðheilsu fyrir allt starfsfólk embættisins.Vísir/Anton Brink

Spurt og svarað um lögguna

En fyrir okkur hin, sem sjáum lögregluna hér og þar en vitum lítið um lögregluembættið sem vinnustað, er gaman að fá enn meiri innsýn.

Og þá er ekkert annað en að spyrja nánar um málin.

Nú er LRH rótgróinn vinnustaður; Er mikill munur á því hvernig ólíkar kynslóðir upplifa geðheilbrigðismálin?

„Já klárlega,“ svarar Sigurveig Helga.

„Það er til dæmis kynslóðamunur á því hvers konar kröfur fólk gerir í þessum málum til sinna yfirmanna. Kynslóðamunur er viss áskorun en á vinnustöðum þar sem nokkrar kynslóðir vinna saman þarf einfaldlega að reyna að finna milliveginn í sumum málum.“

En hversu karlægur er vinnustaðurinn?

„Í útkallslöggæslunni eru hlutföllin 40:60 karlmönnum í vil. En við gerum okkur vonir um að þetta muni smám saman jafnast betur því það hlutfall kvenna er hærra hjá yngri kynslóðunum.“

Sigurveig Helga segir líka jákvætt að nú komist fleiri nemendur í lögreglunámið og sem betur fer sé áhugi hjá ungu fólki að verða lögreglumenn.

„Við eigum ekki nógu marga menntaða lögreglumenn, sem vonandi fer að lagast nú þegar heimild er fyrir fleiri nemendur í lögreglunámið.“

Sigurveig Helga segir lögreglumenn sem tala önnur tungumál eftirsótta enda stór hluti samfélagsins í dag íbúar erlendis frá. Kynjahlutföllin eru jafnari í yngri aldurshópum lögreglunnar en þeim eldri og vonir eru um fleiri menntaða lögreglumenn nú þegar heimild er fyrir fleiri nemendur í lögreglunámið.Vísir/Anton Brink

En hvað með lögreglumenn sem eru af erlendum uppruna, nú þegar um fimmtungur af íbúum í samfélaginu kemur annars staðar frá?

„Það eru ákveðnar takmarkanir á því vegna þess að lagaumhverfið er þannig að lögreglumenn þarf að vera með íslenskan ríkisborgararétt. En sem til dæmis tala önnur tungumál en íslensku eru eftirsóttir og sjálf viljum við gjarnan hafa sem fjölbreyttasta hópinn innan okkar raða, þannig að lögreglan sé helst að endurspegla samsetningu samfélagsins.“

Hvað með fjölskyldur lögreglumanna; Nú hljóta makar oft að hafa áhyggjur af því hvað getur mögulega gerst í vinnunni, sérstaklega þegar við vitum að skipulagðir glæpir og ofbeldi eru að aukast?

„Já vissulega getur álagið líka dreifst yfir á aðra fjölskyldumeðlimi. Ekki aðeins maka heldur líka börn. Hér hafa því alveg komið upp sértæk tilvik þar sem boðið hefur verið upp á sálfræðilegan stuðning og þjónustu fyrir fjölskyldumeðlimi,“ segir Sigurveig Helga en bætir við:

„Með því að móta og gefa út geðheilsustefnu verða aðgerðir og úrræði sýnilegri. En stuðningur er alltaf áskorun þar sem einnig þarf að meta hvert tilfelli fyrir sig og jafnvel að hugsa stundum út fyrir kassann þannig að úrræði séu sniðin af því hvað þarf hverju sinni eða þeim einstaklingi sem um ræðir.“

Ýmsir vinnustaðir bjóða upp á samtalstíma fyrir starfsfólk við fleiri sérfræðinga en sálfræðinga. Er það í boði hjá ykkur?

„Það hefur alveg verið umræða um aðgengi að til dæmis hjónabandsráðgjöfum eða fjármálaráðgjafa og fleira svo eitthvað sé nefnt. Enda vitað að til dæmis fjárhagsáhyggjur valda mikilli streitu og álag getur alveg myndast hvort sem það skapast heima fyrir eða í vinnunni. Enn sem komið er, eru það þó fyrst og fremst þessir tíu sálfræðitímar sem við bendum fólki á að nýta sér. Því þessir tímar eru fyrst og fremst fyrir fólk að ræða hvað sem því liggur á hjarta um.“


Tengdar fréttir

Stjórnun þarf ekki bara að breytast heldur „gerbreytast”

„Í ár leggjum við áherslu á mikilvægi þess að stjórnendur átti sig á því að stjórnun þurfi að breytast. Ekki bara breytast heldur „gerbreytast.” Í dag þarf að stjórna á allt annan hátt, fyrst og fremst vegna þróunar í upplýsingatækni og menningu fyrirtækja,” segir Adriana Karolina Pétursdóttir formaður Mannauðs um áherslur Alþjóðlega mannauðsdagsins sem haldinn er hátíðlegur í dag.

Hrósæfingar fyrir vinnustaði, gryfjur og góð ráð

„Jú, það er kynslóðamunur á fólki þegar kemur að hrósi. Því elsta kynslóðin á vinnumarkaði er kynslóð sem fékk ekki hrós heldur ólst upp við setningar eins og „Engar fréttir eru góðar fréttir,“ segir Ingrid Kuhlman þjálfari, ráðgjafi og framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar.

Fólki á helst að líða betur eftir vinnudaginn en þegar það mætti

„Ég hef oft heyrt þessa spurningu: Hvers vegna er geðheilsa starfsfólks okkar vandamál? Hvers vegna eigum við að borga sálfræðiþjónustu fyrir starfsfólk sem er til dæmis í vanlíðan vegna erfiðleika í hjónabandinu,“ segir Sigrún Ósk Jakobsdóttir mannauðstjóri Advania.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×