Enski boltinn

Þrennubikar Man. United geymdur á Anfield

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Peter Schmeichel lyftir Meistaradeildarbikarnum eftir sigur Manchester United á Bayern München í úrslitaleiknum 1999. Þessi bikar er varðveittur í bikarskáp Liverpool.
Peter Schmeichel lyftir Meistaradeildarbikarnum eftir sigur Manchester United á Bayern München í úrslitaleiknum 1999. Þessi bikar er varðveittur í bikarskáp Liverpool. Getty/Etsuo Hara

Einn sætasti bikarinn í sögu Manchester United er ekki geymdur í bikarskáp Manchester United á Old Trafford heldur hjá erkifjendum þeirra í Liverpool.

Stuðningsmenn Manchester United upplifðu ótrúlega ellefu daga í maímánuði 1999 þegar lið þeirra tryggði sér þrjá titla á rúmri viku.

United varð enskur meistari eftir sigur á Tottenham í lokaumferðinni 16. maí 1999, enskur bikarmeistari eftir sigur á Newcastle á Wembley 22. maí 1999 og loks vann liðið Meistaradeildina eftir endurkomusigur á Bayern München á Nývangi í Barcelona 26. maí 1999.

United skoraði tvö mörk í blálokin á móti Bayern og Peter Schmeichel tók við Meistaradeildarbikarnum í leikslok þar sem fyrirliðinn Roy Keane tók út leikbann í leiknum.

Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, tók virkan þátt í bikargleðinni enda risastórt fyrir hann og annað United fólk að vinna þrennuna.

Það vita færri af því að sami Meistaradeildarbikar sem United vann er nú í eigu Liverpool.

Liverpool fékk hann til eignar þegar liðið vann Evrópukeppni meistaraliða í fimmta sinn vorið 2005. Reglurnar voru þannig þá hjá UEFA en þeim var síðan breytt tveimur árum síðar og nú fá sigurvegararnir aðeins eftirlíkingu af bikarnum.

Liverpool geymir aftur á móti Meistaradeildarbikarinn frá 1999 (og 2005) í verðlaunaskáp sínum á Anfield og leiðsögumennirnir um leikvanginn þreytast ekki á að segja frá því að þar sér þrennubikar Manchester United á ferðinni.

Ef stuðningsmenn United vilja að komast nálægt þessum eftirminnilega bikar félagsins þá þurfa þeir að heimsæja Anfield og bikarsafn erkifjenda þeirra í Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×