Fótbolti

Sjáðu Stefán Inga skora fyrstu þrennu Ís­lendings í næstum því fimm ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefán Ingi Sigurðarson fagna einu marka sinna í leiknum.
Stefán Ingi Sigurðarson fagna einu marka sinna í leiknum. Skjámynd/TV 2 Sport

Stefán Ingi Sigurðarson varð um síðustu helgi aðeins níundi íslenski leikmaðurinn til að skora þrennu í norsku úrvalsdeildinni. Það voru næstum því fimm ár liðin frá þeirri síðustu.

Nú má sjá þessi þrjú mörk frá Stefáni hér fyrir neðan en mörk íslenska framherjans komu öll í fyrri hálfleiknum. Stefán Ingi skoraði mörkin sín á 8., 22. og 39. mínútu. Fyrstu tvö mörkin skoraði hann með skalla en það síðasta með góðu vinstri fótar skoti.

Aðeins einn annar Íslendingur hefur skorað þrennu í fyrri hálfleik í norsku úrvalsdeildinni og það var einmitt sá sami og skoraði síðustu þrennu.

Viðar Örn Kjartansson var kominn með þrennu eftir aðeins 23 mínútur í 5-0 sigri Vålerenga á Brann í september 2020.

Viðar Örn og Stefán Ingi eru þeir einu sem hafa fullkomnað þrennu fyrir hálfleik. Þeir eru líka þeir einu frá Íslandi sem hafa skorað þrjú mörk í einum hálfleik í efstu deild í Noregi.

Viðar skoraði alls þrjár þrennur í norsku úrvalsdeildinni eða jafnmargar og Veigar Páll Gunnarsson. Þeir deila íslenska metinu.

Hinir Íslendingarnir sem hafa skorað þrennu í norsku úrvalsdeildinni eru Heiðar Helguson, Ríkharður Daðason, Stefán Gíslason, Björn Bergmann Sigurðarson, Matthías Vilhjálmsson og Pálmi Rafn Pálmason.

Hér fyrir neðan má sjá mörk Stefáns en þau koma eftir 42 sekúndur af myndbandinu, eftir eina mínútu og 53 sekúndur og eftir þrjár mínútur og tuttugu sekúndur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×