Fótbolti

Fengu loksins leyfi til að spila spænskan deildar­leik í Miami

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Lamine Yamal og félagar frá Barcelona eru á leið til Miami í desember, ef allt gengur eftir. 
Lamine Yamal og félagar frá Barcelona eru á leið til Miami í desember, ef allt gengur eftir.  Eric Alonso/Getty

Eftir áralangar tilraunir til að spila spænskan deildarleik í Bandaríkjunum lítur út fyrir að loksins verði af því í desember næstkomandi. Spænska knattspyrnusambandið samþykkti í dag að leikur Villareal og Barcelona fari fram í Miami. Nú á aðeins eftir að ganga frá formsatriðum og fá samþykki frá UEFA og FIFA.

Þetta verður í fyrsta sinn sem deildarleikur í einni af fimm bestu deildum Evrópu verður spilaður í Bandaríkjunum en spænsku liðin hafa lengi barist fyrir þessu.

Barcelona og Atlético Madrid hafa gengið hvað harðast í baráttunni á meðan Real Madrid hefur sett sig upp á móti þessu.

Frá árinu 2018 hafa nokkrar tilraunir verið gerðar til að spila spænskan deildarleik í Bandaríkjunum en því hefur alla tíð verið hafnað af spænska knattspyrnusambandinu.

Nú hefur loks fengist leyfi frá spænska knattspyrnusambandinu, sem hefur áður sett á fót bikarleiki í Sádi-Arabíu.

Eftir standa regnhlífarsamtökin, evrópsku- og alþjóða knattspyrnusamböndin UEFA og FIFA, sem verða einnig að gefa leyfi en þau eru ekki talin líkleg til að standa í vegi fyrir vilja spænska knattspyrnusambandsins og úrvalsdeildarinnar.

Leikur Villareal og Barcelona fer fram þann 20. desember næstkomandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×