Handbolti

Viktor Gísli fær treyju númer eitt hjá Barcelona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson og Egyptinn Seif El-Deraa halda á treyjum Barcelona.
Viktor Gísli Hallgrímsson og Egyptinn Seif El-Deraa halda á treyjum Barcelona. barcelona

Fjórir nýir leikmenn voru kynntir til leiks hjá spænska stórveldinu Barcelona í dag. Þeirra á meðal var landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson.

Viktor Gísli kemur til Barcelona frá Wisla Plock í Póllandi. Hann hefur einnig leikið með GOG í Danmörku og Nantes í Frakklandi síðan hann hélt út í atvinnumennsku 2019.

Auk Viktors Gísla voru egypski leikstjórnandinn Seif El-Deraa, spænski hornamaðurinn Daniel Fernández og franski línumaðurinn Ludovic Fabregas kynntir til leiks hjá Barcelona í dag. Sá síðastnefndi þekkir vel til í herbúðum félagsins en hann lék með því á árunum 2018-23.

Viktor Gísli spilar í treyju númer eitt hjá Barcelona og mun verja mark liðsins á næsta tímabili ásamt Dananum Emil Nielsen. Búast má við því að hlutverk Viktors Gísla verði enn stærra tímabilið 2026-27 þegar Nielsen fer til Veszprém í Ungverjalandi.

Viktor Gísli verður fjórði Íslendingurinn sem spilar með Barcelona, á eftir Viggó Sigurðssyni, Guðjóni Val Sigurðssyni og Aroni Pálmarssyni.

Barcelona hefur haft gríðarlega yfirburði heima fyrir undanfarin ár og orðið spænskur meistari fjórtán sinnum í röð. Þá hefur liðið unnið Meistaradeild Evrópu tólf sinnum, síðast í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×