Íslenski boltinn

„Galið og fá­rán­legt“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Halldór Jón Sigurðsson er þjálfari Tindastóls.
Halldór Jón Sigurðsson er þjálfari Tindastóls. Vísir/Vilhelm

Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Tindastóls, er brjálaður yfir því að Brookelynn Paige Entz hafi ekki fengið heimild til að spila leik liðsins gegn Þrótti fyrr í kvöld. Hann segir bæði félög búin að ganga frá pappírum, en „einhver ríkisstofnun“ hafi komið í veg fyrir að hún mætti spila.

Brookelynn hefur spilað hér á landi síðan árið 2022, með Val, HK og í sumar með Grindavík. Hún er á leiðinni til Tindastóls en hefur ekki fengið leikheimild hjá nýja félaginu, eins og Halldór nefndi í viðtali eftir leik.

„Við fengum leikmann í glugganum, sem fékk svo bara ekki leikheimild og ég er gríðarlega sár og svekktur með það.

Að það hafi ekki verið hægt að græja þetta því allir pappírar voru til staðar og við skiluðum öllu til KSÍ en þetta festist hjá einhverri ríkisstofnun í þrjá daga. Galið og fáránlegt.

Þetta er leikmaður sem er að skipta um félög innanlands, algjörlega út úr kortinu að það sé ekki hægt að græja þetta og ég er eiginlega bara brjálaður yfir þessu, gjörsamlega.“ sagði Halldór eftir leik.

Sérfræðingarnir í Bestu mörkunum veltu málinu fyrir sér en þurftu að játa sig sigraða og skildu ekki af hverju leikheimildin hefði tafist með þessum hætti.

Þær voru þó allar sammála um að málið væri furðulegt, sérstaklega þar sem þetta eru félagaskipti innanlands og kæmi sér mjög illa fyrir Tindastól.

„Ég skil alveg að hann sé pirraður af því þetta er öflugur leikmaður… Þetta er frábær leikmaður og mun hjálpa þeim mjög mikið, eðlilega er hann svekktur að þetta hafi ekki gengið í gegn. Hún hefði reynst þeim vel“ segir Ásta Eir Árnadóttir en umræðuna alla má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×