Fótbolti

Leik­menn þurftu að flýja völlinn undan flug­eldum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aðalstuðningsmannasveit Vålerenga var að halda upp á fimmtán ára afmæli sitt.
Aðalstuðningsmannasveit Vålerenga var að halda upp á fimmtán ára afmæli sitt. @ValerengaOslo

Stuðningsmenn Vålerenga gengu allt of langt í flugeldanotkun sinni í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta um helgina. Framkoma þeirra hefur vakið upp umræðu í Noregi um hvort að það verði að taka harðara á notkun flugelda á fótboltaleikjum í landinu.

NRK Sport

FIFA og UEFA taka mjög hart á flugeldanotkun í alþjóðlegum leikjum og sekta félög umsvifalaust fyrir slíkt. Það hafa norsk félög fengið að reyna að eigin skinni.

Það er ljóst að framkoma stuðningsmanna Vålerenga um helgina myndi hafa stórar afleiðingar ef þetta hefði verið alþjóðlegur leikur.

Leikmenn liðanna þurftu meðal annars að flýja völlinn undan flugeldum og dómari leiksins fékk flugeld í sig. Norska ríkisútvarpið segir frá.

Ikaros, stuðningsmannasveit Vålerenga, var að halda upp á fimmtán ára afmæli sitt og ætlaði að gera það með miklum stæl. Skömmu eftir að leikurinn hófst fór allt á fullt og flugeldarnir komu hver á fætur öðrum.

Það varð að stöðva leikinn í tvær mínútur eftir flugeldasýninguna og á þeim tíma fóru allir leikmenn í báðum liðum af velli. Bæði þjálfarar og leikmenn komu seinna út á völlinn til að týna upp leifarnar af flugvellinum svo hægt væri að halda áfram leik.

„Auðvitað vildu þeir halda upp á þetta og skapa sem bestu stemmninguna. Þeir ætluðu að sýna að þeir séu bestu stuðningsmennirnir í Noregi en þetta var algjörlega ónauðsynlegt,“ sagði Daniel Karlsbakk hjá Sarpsborg sem var mótherji Vålerenga í leiknum.

Svo slæmt var ástandið um tíma að annað markið sást ekki fyrir bláum reyk.

Vålerenga vann leikinn á endanum 4-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×