Samstarf

Nýr vefur Fé­lags for­eldra- og upp­eldis­fræðinga kominn í loftið

Félag foreldra- og uppeldisfræðinga
Félag foreldra- og uppeldisfræðinga kynnti nýlega nýjan vef félagsins. Unnur Tómasdóttir (t.v.), Helena Sigurðardóttir og Rakel Guðbjörnsdóttir sitja allar í stjórn félagsins.
Félag foreldra- og uppeldisfræðinga kynnti nýlega nýjan vef félagsins. Unnur Tómasdóttir (t.v.), Helena Sigurðardóttir og Rakel Guðbjörnsdóttir sitja allar í stjórn félagsins.

Nýlega opnaði Félag foreldra- og uppeldisfræðinga nýjan vef sem er hugsaður sem svæði þar sem foreldrar hafa gott aðgengi að gagnreyndum aðferðum og efni sem byggir á rannsóknum.

Á vefnum verður safnað saman upplýsingum um fræðsluefni og námskeið sem haldin eru af meðlimum félagsins á einn stað auk þess sem þarf má finna lista yfir starfandi foreldra- og uppeldisfræðinga.

Félag foreldra- og uppeldisfræðinga samanstendur af fólki sem hefur lokið eða er að ljúka framhaldsnámi í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf í Háskóla Íslands. „Foreldrafræðsla og uppeldisráðgjöf er mikilvæg fyrir samfélagið í heild, þar sem það getur stuðlað að heilbrigðari uppeldi og betri framtíð fyrir börn,“ segir Unnur Tómasdóttir, ráðgjafi í málefnum fatlaðra barna hjá Reykjavíkurborg. „Fái foreldrar viðeigandi stuðning og fræðslu með það að leiðarljósi að mæta þeim þar sem þau eru stödd, styðjum við þau í að þroskast í hlutverki sínu sem uppalendur.“

Foreldrar í samfélagi dagsins í dag standa frammi fyrir margs konar áskorunum og hefur þörfin við að styðja fjölskyldur aldrei verið meiri segir Helena Sigurðardóttir, ráðgjafi í málefnum fatlaðra barna hjá Reykjavíkurborg. „Markmið foreldrafræðslu er að veita foreldrum upplýsingar, verkfæri og stuðning sem hjálpa þeim að þróa uppeldisaðferðir sem ættu að byggjast á ást, virðingu, skilning og mörkum.“

Stétt sem sinnir margþættum verkefnum hjá ýmsum stofnunum

Foreldra- og uppeldisfræðingar er ný starfsstétt sem sinnir margþættum verkefnum og má finna þá í ýmsum stofnunum á öllum þjónustustigum. „Um er að ræða úrræði fyrir uppalendur, þar sem gefst tími og rými til að ræða uppeldi barna sinna og þær daglegu áskoranir sem við glímum við í foreldrahlutverkinu, undir handleiðslu foreldra- og uppeldisfræðings,“ segir Rakel Guðbjörnsdóttir sem starfar hjá BUGL.

Hafa ber í huga að foreldrafræðsla og uppeldisráðgjöf er ekki eingöngu fyrir foreldra sem eru að takast á við hegðunarvanda eða erfiðar aðstæður heldur einnig fyrir þau sem vilja styrkja tengsl sín við börnin og þróa með sér jákvæðar uppeldisvenjur. „Við veitum ráðgjöf bæði til hópa og til einstaklinga, erum með fræðslu og veitum handleiðslu til foreldra. Handleiðslan felst í því að foreldrar skoði sín gildi og átti sig á þeim, ásamt því að skoða hvernig uppeldi þau hlutu og hvernig það skarast á eða helst í hendur við það uppeldi sem þau eru að veita,“ bætir Unnur við.

Nýtt og spennandi fag hérlendis

Foreldra- og uppeldisfræðingar starfa m.a. í skólum, hjá félagsþjónustunni, í heilbrigðiskerfinu, hjá Háskóla Íslands, í ráðuneytum og á klínískum stofum auk þess að stafa sjálfstætt. „Við störfum innan allra þjónustustiga; Fyrsta stigs, annars stigs og þriðja stigs bæði við forvarnir og misumfangsmikil inngrip,“ segir Helena.

Þær segja fagið vera tiltölulega nýtt hérlendis og fyrir vikið sé svo margt nýtt og spennandi við það. „Námsleiðin var fyrst kennd árið 2015 og fagnar því 10 ára afmæli í haust. Þessi námsleið er skipulögð í samstarfi við Minnesota-háskóla, sem hefur verið leiðandi í menntun á sviði foreldrafræðslu og uppeldisráðgjafar í Bandaríkjunum,“ segir Rakel.

Mikil þörf fyrir fræðslu og þjónustu

Fagfólk félagsins hefur staðið fyrir rannsóknum í samstarfi við Háskóla Íslands þar sem verið er að kanna þörf fyrir og gagnsemi foreldrafræðslu. „Niðurstöður benda til þess að foreldrar og annað fagfólk sem starfar með börnum sjá mikla þörf fyrir þess konar fræðslu og ráðgjöf. Fagfólk okkar hefur verið að bregðast við þessu ákalli og starfsemin í sífelldri þróun og mótun,“ bætir Unnur við.

Verið velkomin á nýja vef Félags foreldra- og uppeldisfræðinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×