Körfubolti

„Ef hann fer inn í teig fær hann villu en við fáum lítið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson skoraði átta stig og tók fjögur fráköst gegn Ísrael.
Jón Axel Guðmundsson skoraði átta stig og tók fjögur fráköst gegn Ísrael. vísir/hulda margrét

Jón Axel Guðmundsson var svekktur með úrslitin í leik Íslands og Ísraels á EM í körfubolta í dag. Ísraelar voru alltaf með forystuna og unnu tólf stiga sigur, 83-71.

„Manni líður ekkert vel. Mér fannst við geta gert betur og við vorum óheppnir að við vorum ekki alveg að hitta úr okkar skotum. Manni fannst við alltaf vera inni í leiknum en það vantaði nokkur stemmningsskot til að við myndum klára þetta,“ sagði Jón Axel í samtali við Val Pál Eiríksson eftir leikinn.

Klippa: Viðtal við Jón Axel

Aðeins fjórum stigum munaði á liðunum í hálfleik, 36-32, en Ísrael byrjaði seinni hálfleikinn mun betur og náði mest sautján stiga forskoti í 3. leikhluta. Eftir það var brekkan brött fyrir Ísland.

„Það er erfitt þegar þeir eru með svona mikil gæði inni á vellinum. Þú þarft strax að byrja að elta í og það fer voðalega mikil orka í að koma til baka. Við náðum að koma þessu niður í einhver 6-8 stig en þá voru menn byrjaðir að pústa helvíti hart,“ sagði Jón Axel.

Honum fannst íslenska liðið ekki njóta sannmælis í dómgæslunni og þótti Grindvíkingnum NBA-leikmaður Ísraels, Deni Avdija, fá full ódýrar villur, öfugt við til dæmis Martin Hermannsson.

Hann er ekki í NBA

„Við fórum mikið inn í teig. Það voru fáar villur dæmdar þegar við fórum inn í teiginn allan leikinn. Martin fór mikið á hringinn, þeir brutu mikið á honum en hann er ekki í NBA og þá fær hann minni villur en einhverjir aðrir í hinu liðinu,“ sagði Jón Axel.

„Ef hann fer inn í teig fær hann villu en ef við förum inn í teig fáum við lítið.“

En var Jón Axel ósáttur við dómgæsluna í dag?

„Ekkert þannig. Villurnar eru jafnar en það væri fínt upp á að menn komist í takt að fá nokkur vítaskot inn á milli. Þeir jöfnuðu þetta mikið með villum úti á velli og annað þannig,“ svaraði Jón Axel.

Jón Axel hitti úr fjórum af tólf skotum sínum í leiknum.vísir/hulda margrét

Hann vill meina að fyrri hálfleikurinn gefi betri mynd af muninum á liðunum en sá seinni.

„Munurinn var eins og fyrri hálfleikurinn var. Við erum í þeim allan tímann en það vantaði að nokkur stemmningsskot myndu detta og þá fá menn sjálfstraustið beint aftur,“ sagði Jón Axel.

Getur ekki beðið eftir næsta leik

Hann naut þess að spila fyrir framan íslensku stuðningsmenn í Spodek í Katowice.

„Þetta var geggjað og maður fékk auka orku til að gera allt inni á vellinum með þessa stuðningsmenn í stúkunni. Maður getur eiginlega ekki beðið eftir næsta leik á laugardaginn,“ sagði Jón Axel en eftir tvo daga mætir Ísland Belgíu í öðrum leik sínum á EM.

Viðtalið við Jón Axel má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

„Ég biðst afsökunar“

„Mér líður persónulega alveg ömurlega. Ég er hrikalega svekktur með sjálfan mig, fyrst og fremst“ sagði Martin Hermannsson eftir 83-71 tap Íslands gegn Ísrael í fyrsta leik á EM í körfubolta.

Ein­kunnir á móti Ís­rael: Máttum ekki við svona hauskúpu­leik hjá Martin

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta tapaði sínum fyrsta leik á Evrópumótinu í Póllandi. Eftir ágæta spretti í fyrri hálfleik fór orkulaus og klaufaleg byrjun á seinni hálfleik nánast langt með að klúðra þessum leik fyrir íslenska liðið. Í lokin munaði tólf stigum á liðunum.

„Verðum að geta skotið betur“

„Við gerðum fullt af góðum hlutum. Við skutum bara ekki nógu vel,“ sagði Craig Pedersen, þjálfari Íslands, eftir tólf stiga tap gegn Ísrael í fyrsta leik á EM í körfubolta í Katowice í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×