Viðskipti innlent

Loka vinnslu og segja upp fimm­tíu vegna veiðigjaldahækkunar

Árni Sæberg skrifar
Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum.
Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum. Vísir/Vilhelm

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum hefur ákveðið að loka fiskvinnslunni Leo Seafood til þess að mæta hækkun veiðigjalda upp á 850 milljónir króna á ári. Fimmtíu missa vinnuna vegna þessa.

Í tilkynningu þess efnis á vef félagsins segir að undanfarnar vikur hafi stjórn og stjórnendur Vinnslustöðvarinnar unnið að endurskoðun á rekstri fyrirtækisins í leit að hagræðingu. 

„Er það óumflýjanleg aðgerð vegna aukinnar skattheimtu ríkisins sem er áætluð 850 milljónir á ári fyrir samstæðu Vinnslustöðvarinnar þegar hún verður að fullu komin til framkvæmda. Eftir hækkunina eru veiðigjöld Vinnslustöðvarinnar áætluð 1.450 milljónir króna á ári.“

Frysting dugi ekki til

Fyrsta skrefið hafi verið að stöðva allar fyrirhugaðar framkvæmdir og kaup á nýjum skipum. Það eitt og sér dugi ekki til og því þurfi að grípa til fleiri aðgerða. 

Stjórn Vinnslustöðvarinnar hafi því ákveðið að loka fiskvinnslunni Leo Seafood. Það sé erfið en nauðsynleg ákvörðun. Við breytingarnar þurfi félagið að grípa til uppsagna fimmtíu starfsmanna.

Reksturinn verið erfiður

„Fyrir utan hækkun veiðigjalda hafa gríðarlegar hækkanir á launakostnaði og sterk króna gert rekstur Leo Seafood erfiðan. Í tvö ár hefur verið unnið að hagræðingu sem hefur borið árangur en Leo Seafood er enn þá í taprekstri. Í kjölfar lokunar á Leo Seafood mun hluti þess fisks sem unninn var þar verða unninn í saltfiskvinnslu Vinnslustöðvarinnar en jafnframt verður sala á markaði aukin.“

Áhrifin verði víðtæk og benda megi á að launakostnaður Leo Seafood hafi numið 550 milljónum króna á síðasta ári og ríkið og Vestmannaeyjabær verði af 122 milljónum við þessa aðgerð í formi útsvars og skatta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×