Enski boltinn

Segja Manchester United skulda Antony 996 milljónir í laun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brasillíumaðurinn Antony var flottur með Real Betis eftir að hann kom þangað á láni í janúar.
Brasillíumaðurinn Antony var flottur með Real Betis eftir að hann kom þangað á láni í janúar. EPA/Raul Caro

Er þetta útspil hjá Real Betis eða uppgjöf? Það er stóra spurningin eftir að Real Betis dró í gærkvöldi til baka samþykkt tilboð sitt í Brasilíumanninn Antony hjá Manchester United.

Manchester United var búið að samþykkja 25 milljón punda tilboð Real Betis í leikmanninn en United átti einnig að fá fimmtíu prósent af framtíðarsölu.

Antony fékk þá leyfi til að ferðast til Spánar og semja um kaup og kjör.

Samkvæmt fréttum úr herbúðum Betis kom fljótlega í ljós að félagið réði ekki við launakröfur Antony. Þeir segja eina leiðin vera að Antony taki á sig launalækkun eða að United komi þar eitthvað inn í.

Real Betis gaf það því út að félagið væri hætt við kaupin.

Samkvæmt upplýsingum úr herbúðum Manchester United þá telja menn þar á bæ að þetta sé útspil hjá spænska félaginu í að fá betri samning.

Betis segir aftur á móti að Manchester United skuldi Antony sex milljónir punda í laun eða 996 milljónir í íslenskum krónum. Antony er með samning við United til ársins 2027 eða í tvö ár í viðbót. Þaðan kemur fyrrnefnd upphæð. Hann var eins og fleiri hjá félaginu á engum sultarlaunum og vill ekki gefa þau eftir.

Nú þarf að bíða og sjá hvert verður næsta skref. Mun Antony taka á sig launalækkun, mun United borga upp eitthvað af launum hans eða mun Antony verða áfram fastur í frystikistunni á Old Trafford?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×