Tónlist

Raf­tón­listar­hátíðin Extreme Chill haldin í sex­tánda sinn næstu helgi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Mixmaster Morris og Pan Thorarensen sem skipuleggur hátíðina.
Mixmaster Morris og Pan Thorarensen sem skipuleggur hátíðina. Aðsend

Tónlistarhátíðin Extreme Chill fer fram í sextánda sinn í Reykjavík dagana 3.-7. september. Meðal listamanna sem koma fram á hátíðinni í ár eru John Maus, Romeo Poirier, Antonina Nowacka og Patricia Wolf. Hátíðin fer fram á sex stöðum í miðbænum og verður skemmtistaðurinn Húrra enduropnaður sérstaklega fyrir hátíðina.

Aðrir sem koma fram á hátíðinni eru Seefeel (av/live), John Maus, Loscil, Drew McDowall (coil), Matt Black (Coldcut / Ninja Tune),Mixmaster Morris, R-O-R (Gyða Valtýsdóttir & Úlfur Hansson), Hekla og Þóranna Björnsdóttir. Opnunaratriði hátíðarinnar verður tileinkað Árna Grétari Jóhannessyni sem lést í janúar á þessu ári. Árni Grétar, einnig þekktur sem Futuregrapher, var reglulegur gestur og listamaður á hátíðinni.

„Þetta er fimm daga tónlistarveisla þar sem íslenskir og erlendir listamenn með ólíkan bakgrunn á öllum aldri mætast í sköpun sinni undir áhrifum íslenskrar náttúru. Einstakur viðburður sem engin ætti að láta fram hjá sér fara. Þetta verður leyndardómsfullt ferðalag um rafræna Reykjavík,“ segir í lýsingu fyrir hátíðina.

Patricia Wolf kemur fram á fimmtudeginum í Bíó Paradís. Aðsend

Pan Thorarensen, eigandi og skipuleggjandi hátíðarinnar, opnar hátíðina með Atla Má Þorvaldssyni, eða Orang Volante, í Bíó Paradís á fimmtudag.

Minnast Árna Grétars

„Þetta verður árlegur viðburður, að hátíðin byrji á þessu. Ég myndi skipta út Dj-unum sem spila og það verða þá alltaf einhverjir vinir hans Árna. Það er gaman og það verður magnað. Við höfum verið með Bíó Paradís síðustu tvö ár og Árni Grétar spilaði svo oft frammi þar einhverja kósí tónlist. Það var því upplagt að minnast hans með þessum hætti,“ segir Árni.

Tónleikarnir eru frá fimmtudegi til sunnudags og fara fram í Bíó Paradís, Gamla bíó, Center Hotel Ský, Kaffibarnum, Húrra, Space Odyssey og Iðnó.

„Við erum að dreifa tónleikunum meira á daga í stað þess að vera með tíu atriði á einu kvöldi. Þá er þetta búið á skikkanlegum tíma,“ segir Pan og að þannig sé hátíðin aðeins búin að fullorðnast, enda orðin 16 ára gömul.

John Maus kemur fram á gamla Húrra á laugardagskvöldi hátíðarinnar. Aðsend

„En það er samt allskonar partý í boði fyrir þau sem vilja vaka,“ bætir hann léttur við. Til dæmis er Mixmaster Morris að loka hátíðinni á fimmtudeginum með DJ-setti á Kaffibarnum en hann kemur alltaf fram á hátíðinni.

Enduropna skemmtistaðinn Húrra

„Við ætlum svo að enduropna Húrra á laugardaginn fyrir hátíðina. Það er áskorun en það er rosalega spenna fyrir því kvöldi,“ segir Pan. Meðal þeirra sem koma fram þar eru John Maus, Hermigervill og Skurken.

Skemmtistaðurinn Húrra lokaði árið 2023 en skemmtistaðurinn Radar var opnaður þar eftir lokunina. Hann lokaði síðustu áramót. Pan segir mikla vöntun á tónleikastöðum í Reykjavík sem séu ekki „of fancy“.

„Það er söknuður eftir svona minni tónleikastöðum. Sem taka 250 til 300 manns og eru ekki of „fancy“ og dálítið hráir.“

Romeo Poirier kemur fram í Iðnó á föstudeginum. Aðsend

Lokakvöld hátíðarinnar fer í ár fram í versluninni Space Odyssey og á Kaffibarnum. Pan segir að áður hafi þau verið með lokadagskrá til dæmis í Fríkirkjunni í Reykjavík en það sé þeirra upplifun að fólk sé yfirleitt „frekar búið á því“ og því verður lokakvöldið með lágstemmdara sniði í ár.

„Við verðum með tvö svið á efri og neðri hæð í Space Odyssey. Það verður hægt að hlusta á tónlist og spjalla en það endar samt svo með eftirpartýi á Kaffibarnum sem er auðvitað bara beint á móti.“

Markhópurinn yngist á meðan hátíðin eldist

Hægt er að kaupa bæði miða á alla daga hátíðarinnar og dagspassa. Pan segir það skemmtilega tilbreytingu. Með því að selja dagspassa skapist oft misjöfn stemning ólíka daga hátíðarinnar. Hægt er að kynna sér hátíðina betur hér á heimasíðu hennar.

„Þetta er fyrir alla. Markhópurinn hefur farið niður og yngst og það tengist line-upinu. Við erum með listamenn sem eru á uppleið í bland við gamlar hetjur. Við köllum þetta tilraunakennda tónlist en er alltaf í grunninn raftónlist,“ segir Pan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.