Lífið

Graham Greene er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Graham Greene sló í gegn árið 1990 þegar leikarinn og leikstjórinn Kevin Costner fékk hann til að fara með hlutverk Kicking Bird í vetranum Dances with Wolves.
Graham Greene sló í gegn árið 1990 þegar leikarinn og leikstjórinn Kevin Costner fékk hann til að fara með hlutverk Kicking Bird í vetranum Dances with Wolves. Getty

Kanadíski leikarinn Graham Greene er látinn, 73 ára að aldri.

Leikarinn, sem var meðal annars tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt í myndinni Dances with Wolves, lést á sjúkrahúsi í Toronto eftir langvinn veikindi í gær, að því er segir í frétt Deadline.

Greene var að mörgu leyti brautryðjandi á sviði kvikmynda þar sem hann ruddi leiðina fyrir norðurameríska frumbyggja á sviði leiklistar. Hann fæddist á Six Nations-verndarsvæðinu í Kanada árið 1952 og vann ýmis störf áður en hann hellti sér út í kvikmyndabransann.

Greene sló í gegn árið 1990 þegar leikarinn og leikstjórinn Kevin Costner fékk hann til að fara með hlutverk Kicking Bird í vestranum Dances with Wolves, eða Dansar við úlfa. Myndin var tilnefnd til tólf Óskarsverðlauna og hlaut Greene þar tilnefningu sem besti karlleikari í aukahlutverki. Myndin vann til sjö verðlauna, meðal annars sem besta mynd.

Eftir vinsældir Dansar við úlfa lék Greene í fjölda stórra Hollywood-mynda. Hann lék í myndinni Maverick sem skartaði Mel Gibson í aðalhlutverki, Die Hard With a Vengeance með Bruce Willis og The Green Mile með Tom Hanks.

Í seinni tíð fór hann með hlutverk í Wind River og sjónvarpsþáttunum 1883 og Tulsa King.

Greene lætur eftir sig eiginkonuna Hilary Blackmore, dótturina Lilly Lazare-Greene og baranbarnið Tarlo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.