Bíó og sjónvarp

Fluttur á spítala eftir mis­lukkað á­hættu­at­riði

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Tom Holland í ofurhetjugallanum við tökur á næstu mynd um Köngulóarmanninn.
Tom Holland í ofurhetjugallanum við tökur á næstu mynd um Köngulóarmanninn. Getty

Leikarinn Tom Holland slasaðist við tökur á áhættuatriði fyrir næstu mynd um Köngulóarmanninn. Farið var með hann á spítala þar sem hann greindist með heilahristing og hefur verið gert tímabundið hlé á tökum.

Dægurmálamiðillinn Variety greinir frá slysinu sem átti sér stað í Leavesden-kvikmyndaverinu í Watford á föstudag. 

Þar segir að Holland hafi verið að taka upp áhættuatriði þegar hann fékk högg á höfuðið. Í kjölfarið var farið með hann á hraði á spítala þar sem hann reyndist vera með vægan heilahristing.

Götublaðið The Sun segir Holland hafa verið viðstaddan góðgerðarkvöldverð degi síðar með föður sínum, grínistanum Dominic Holland, og Zendayu, unnustu sinni og meðleikkonu. Tom hafi þurft að yfirgefa kvöldverðinn snemma vegna slappleika.

Tökum á kvikmyndinni, sem ber heitið Spider-Man: Brand New Day, var frestað eftir slysið og mun Holland taka sér pásu frá tökum meðan hann jafnar sig. Framleiðendur myndarinnar eru sagðir ætla að funda í dag til að ákveða hver næstu skref verði.

Spider-Man: Brand New Day verður frumsýnd í júlí 2026 og er fjórða myndin um köngulóarmanninn þar sem Holland klæðist búningnum. Auk hans fara Zendaya, Jacob Batalon, Mark Ruffalo, Jon Bernthal, Michael Mando, Liza Colón-Zayas, Tramell Tillman og Sadie Sink með hlutverk í myndinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.