Íslenski boltinn

Nik hættir með Breiða­blik og tekur við Kristianstad

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nik Chamberlain skilur við Breiðablik eftir tímabilið.
Nik Chamberlain skilur við Breiðablik eftir tímabilið. vísir/diego

Eftir tímabilið lætur Nik Chamberlain af störfum hjá Breiðabliki og tekur við Kristianstad í Svíþjóð. Félögin greindu bæði frá þessu í morgun.

Nik tók við Breiðabliki fyrir síðasta tímabil eftir að hafa gert góða hluti með Þrótt. Undir hans stjórn urðu Blikar Íslandsmeistarar í fyrra.

Breiðablik varð bikarmeistari í ár og þarf aðeins einn sigur í viðbót til að verja Íslandsmeistaratitilinn. Blikar hafa unnið sextán af nítján leikjum sínum í Bestu deild kvenna og eru með tíu stiga forskot á FH-inga þegar fjórum umferðum er ólokið.

Kristianstad hefur góða reynslu af þjálfurum sem hafa verið á Íslandi en Elísabet Gunnarsdóttir þjálfaði liðið á árunum 2009-23.

Þrír íslenskir leikmenn leika með Kristianstad: Alexandra Jóhannsdóttir, Guðný Árnadóttir og Elísa Lana Sigurjónsdóttir.

Kristianstad er í 5. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 34 stig. Liðið gerði 1-1 jafntefli við Vittsjö í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×