Handbolti

Ís­lendingarnir frá­bærir og fögnuðu í Dan­mörku

Sindri Sverrisson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson var að vanda lykilmaður í sóknarleik Magdeburg.
Gísli Þorgeir Kristjánsson var að vanda lykilmaður í sóknarleik Magdeburg. EPA/MOHAMED HOSSAM

Landsliðstríóið Ómar Ingi Magnússon, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Elvar Örn Jónsson átti ríkan þátt í öruggum sigri Magdeburg gegn GOG í Danmörku í kvöld, 39-30, í Meistaradeild Evrópu í handbolta.

Magdeburg hefur þar með unnið alla fjóra leiki sína til þessa og er á toppi B-riðils en GOG hefur aðeins unnið einn leik og missti auk þess Nicolai Pedersen meiddan af velli í fyrri hálfleik í kvöld.

Ómar Ingi var markahæstur í kvöld með ellefu mörk en þar af komu átta af vítalínunni, þar sem Ómar var öryggið uppmálað og skoraði í öll skiptin.

Í frásögn danska miðilsins hbold.dk frá leiknum segir að Gísli Þorgeir og Magnus Saugstrup hafi leitt Magdeburg áfram í seinni hálfleiknum, þegar gestirnir stungu af eftir að hafa verið 18-16 yfir. 

Gísli endaði með fimm mörk og fimm stoðsendingar, samkvæmt skýrslu EHF, og ætla má að hann hafi náð í einhver vítanna sem Ómar skoraði úr. Elvar skoraði svo þrjú mörk úr þremur skotum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×