Fótbolti

Isak segist vera til­búinn í níu­tíu mínútur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool hefur passað vel upp á það að halda álaginu niðri hjá Alexander Isak sem missti auðvitað af öllu undirbúningstímabilinu.
Liverpool hefur passað vel upp á það að halda álaginu niðri hjá Alexander Isak sem missti auðvitað af öllu undirbúningstímabilinu. EPA/ADAM VAUGHAN E

Alexander Isak hefur ekki enn náð að spila heilan leik á þessu tímabili en sænski landsliðsframherjinn segist vera klár.

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur farið varlega með Svíann enda missti Isak af öllu undirbúningstímabilinu.

Menn hafa séð Isak vera tekinn á hlaupaæfingu úti á velli eftir leik hjá Liverpool.

Nú segist Alexander Isak vera mun betur undirbúinn fyrir mikilvæga leiki Svíþjóðar í undankeppni HM.

„Ég er klár í 90 mínútur ef þess þarf,“ sagði Alexander Isak við sænska ríkisútvarpið.

Í landsliðsverkefninu í september kom hinn 26 ára gamli Alexander Isak aðeins inn á síðustu átján mínúturnar í 0–2 tapinu gegn Kosóvó. Framherjinn hafði ekki spilað leik síðan í maí þar sem hann fór í verkfall til að komast burt frá Newcastle áður en Liverpool keypti hann fyrir 21 milljarð króna á lokadegi félagaskiptagluggans.

Frá tapinu í Pristina hefur Isak spilað sex leiki fyrir Liverpool. Fjórum sinnum hefur hann verið í byrjunarliðinu og Isak hefur hingað til skorað eitt mark og gefið eina stoðsendingu. Isak hefur mest spilað í 84 mínútur í einum leik.

„Við tökum einn leik í einu. Á morgun er ég klár í að spila 90 mínútur ef þess þarf,“ sagði Isak.

Svíþjóð mætir Sviss í kvöld í undankeppni HM. Sænska landsliðið er með eitt stig eftir tvær umferðir á meðan Svisslendingar eru með sex stig af sex mögulegum eftir sigra gegn Slóveníu og Kosóvó.

Jon Dahl Tomasson, þjálfari sænska landsliðsins, staðfesti á blaðamannafundinum að Alexander Isak og markvörðurinn Viktor Johansson muni byrja leikinn gegn Sviss.

„Það er augljóst að það er pressa og miklar væntingar,“ sagði Isak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×