Viðskipti innlent

Vextirnir hækkuðu minna en stýrivextir þrátt fyrir ó­lög­mæta skil­mála

Árni Sæberg skrifar
Jón Guðni Ómarsson er bankastjóri Íslandsbanka. 
Jón Guðni Ómarsson er bankastjóri Íslandsbanka.  Vísir

Allir sjö dómarar Hæstaréttar voru sammála um að skilmálar í lánasamningi Íslandsbanka um breytilega vexti hafi verið ólögmætir. Þrátt fyrir það var Íslandsbanki sýknaður af fjárkröfum í Vaxtamálinu svokallaða, þar sem að vextir á láni þeirra sem höfðuðu málið höfðu hækkað minna en stýrivextir Seðlabankans.

Hæstiréttur kvað upp dóm í málinu klukkan 13:30. 

Í reifun dómsins á vef réttarins segir að lánþegarnir hafi krafist ógildingar á skilmála um breytilega vexti óverðtryggðs húsnæðisláns í veðskuldabréfi sem þeir gáfu út 21. janúar 2021. Samkvæmt honum skyldu breytingar á vöxtum „meðal annars taka mið af breytingum á fjármögnunarkostnaði (lánskjörum) bankans, rekstrarkostnaði, opinberum álögum og/eða öðrum ófyrirséðum kostnaði, stýrivöxtum Seðlabanka Íslands, breytingum á vísitölu neysluverðs o.s.frv.“

Þeir hafi talið að skilmálinn uppfyllti ekki kröfur um gagnsæi í lögum um fasteignalán til neytenda og væri ósanngjarn í skilningi laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eins og skýra bæri þessi lög í ljósi Evróputilskipana um neytendavernd á sviði lánasamninga.

Leituðu álits hjá EFTA

Undir rekstri málsins í héraði hafi verið leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu ákvæða umræddra tilskipana. Hæstiréttur hafi tekið fram að lög um fasteignalán til neytenda hefðu verið sett til að innleiða í íslensk lög tilskipun ESB um lánasamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði. 

Yrði tiltekin grein laganna því skýrð með hliðsjón af tiltekinni grein tilskipunarinnar þótt gerðin hafi ekki verið tekin upp í EES-samninginn fyrr en 1. nóvember 2021. Einnig yrði sá hluti greinarinnar sem byggðist á tilskipun um lánasamninga fyrir neytendur skýrður í ljósi hennar.

Má ekki miða við annað en stýrivexti

Hæstiréttur hafi talið að tilvísun skilmálans til stýrivaxta Seðlabankans stæðist áskilnað laganna um gagnsæi. Þótt vísitala neysluverðs væri opinber vísitala væri vægi hennar í skilmálanum óvissu háð og fullnægði því ekki kröfum laganna.

Jafnframt hafi Hæstiréttur talið að aðrir þættir skilmálans uppfylltu ekki skilyrði laganna enda vísuðu þeir til þátta sem neytandi gæti ekki sannreynt og veittu Íslandsbanka opna og ófyrirsjáanlega heimild til vaxtabreytinga. Skilmálinn raskaði því til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna aðila samningsins neytendunum í óhag og teldist ósanngjarn í skilningi samningalaga, samber tilskipun um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum.

Til að koma á jafnvægi milli samningsaðila hafi Hæstiréttur ógilt aðra þætti skilmálans en tilvísun til stýrivaxta Seðlabankans. Íslandsbanki hafi verið sýknaður af fjárkröfu lánþeganna með vísan til þess að vextir á láni þeirra hafi hækkað minna en stýrivextir Seðlabankans á því tímabili sem ágreiningur málsins tók til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×