Handbolti

Haukar einir á toppnum og HK á hraðri leið upp töfluna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukar fagna þessa dagana.
Haukar fagna þessa dagana. Vísir/Hulda Margrét

Haukar eru einir á tpppnum eftir sannfærandi sigur á Stjörnunni í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. HK-ingar sóttu tvö stig á Akureyri og fögnuðu þar þriðja deildarsigri sínum í röð.

Haukarnir eru með tveggja stiga forskot á Aftureldingu og KA eftir fjögurra marka sigur á Stjörnunni á Ásvöllum í kvöld, 30-26.

Sigur Haukanna var afar sannfærandi en liðið var 17-11 yfir í hálfleik. Haukaliðið náði mest sjö marka forskoti en gestirnir úr Garðabænum löguðu aðeins stöðuna undir lokin.

Strákarnir hans Gunnars Magnússonar hafa nú unnið sex deildarleiki í röð og alls sex af sjö deildarleikjum sínum í vetur.

Freyr Aronsson skoraði sex mörk fyrir Hauka og Birkir Snær Steinsson var með fimm mörk. Jón Ómar Gíslason, Andri Fannar Elísson og Össur Haraldsson skoruðu allir fjögur mörk. Daníel Karl Gunnarsson var markahæstur hjá Stjörnunni með sex mörk.

HK vann átta marka sigur á Þór Akureyri í Höllinni á Akureyri, 32-24. HK var sex mörkum yfir í hálfleik, 17-11.

Andri Þór Helgason skoraði tíu mörk fyrir HK, Ágúst Guðmundsson var með átta mörk og Hjörtur Ingi Halldórsson skoraði fimm.

Brynjar Hólm Grétarsson var markahæstur hjá Þórsurum með tíu mörk og Þórður Tandri Ágústsson skoraði fjögur mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×