Lífið

Borgar­full­trúi bjargaði stolnum barna­vagni

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Kjartan Magnússon gekk fram á barnavagninn við Landakotstún og kom honum aftur í réttar hendur
Kjartan Magnússon gekk fram á barnavagninn við Landakotstún og kom honum aftur í réttar hendur

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, reyndist óvænt hetja þegar hann rambaði á barnavagn á Landakotstúni í gærkvöldi. Barnavagninum hafði verið stolið af tröppum Hússtjórnarskólans skömmu fyrr.

„Þessum Bugaboo Fox 5 var stolið af nákvæmlega þessum stað (tók þessa mynd klst áður) á lóð Hússtjórnarskólans í Reykjavík, Sólvallagötu 12 milli kl. 17:30 og 18:30,“ skrifaði Marta María Arnarsdóttir, skólameistari Hússtjórnarskólans, í færslu á Vesturbæjargrúppuna um kvöldmatarleytið í gær.

Marta María tók við af Margréti Sigfúsdóttur heitinni sem skólameistari Hússtjórnarskólans 2022.

„Ef einhver veit eitthvað - plís heyrið í mér eða skilið vagninum takk,“ skrifaði hún einnig og birti mynd af barnavagninum fyrir utan tröppur Hússtjórnarskólans.

Þá voru góð ráð dýr enda er barnavagn bráðnauðsynlegur fyrir foreldra ungbarna og sömuleiðis ekki ódýr fjárfesting.

„Það er ekki öll vitleysan eins“

Mikilvægi hverfisgrúppunnar var fljótt að sýna sig því borgarfulltrúinn Kjartan Magnússon svaraði færslunni fjórum mínútum eftir birtingu: 

„Gekk fram á vagninn á sunnanverðu Landakotstúni. Skal rölta með hann til ykkar.“

„OMG TAKKKKK,“ svaraði guðsfegin móðirin.

Marta gantaðist síðan með stuldinn í Instagram-hringrás sinni í dag: „Þegar ég tók þessa mynd fyrir utan Húsó í gær til að setja í story... bjóst ég ekki við að þurfa að nýta myndina í að auglýsa eftir honum klukkustund síðar.“

„Það er ekki öll vitleysan eins. En allt er gott sem endar vel.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.